Þingfundur mun hefjast á Alþingi nú klukkan þrjú samkvæmt áætlun og fer þá fram óundirbúinn fyrirspurnatími. Hins vegar hefur verið tekin ákvörðun um það að fresta atkvæðagreiðslu um fjáraukalögin, sem var á dagskrá að loknum fyrirspurnatímanum, fram til morguns. Þetta er gert vegna yfirvofandi fárviðris svo tryggt sé að þingmenn og starfsmenn Alþingis geti verið komnir heim áður en óveðrið skellur á.
Óvissustig er á landinu öllu vegna óveðursins, en ríkislögreglustjóri lýsti því yfir klukkan eitt í dag. Óvissustig einkennist af atburðarás sem ætla má að geti leitt til þess að öryggi fólks og/eða byggðar sé stefnt í hættu.
Foreldrar hafa verið beðnir um að sækja börn sín í skóla og frístundastarf fyrir klukkan 16 til að tryggja að þau séu heima þegar veðrið skellur á. Íþróttaæfingar hafa verið látnar falla niður, allar sundlaugar í Reykjavík munu loka klukkan 16:30 og menningarstofnunum sömuleiðis. Borgin hefur einnig tilkynnt um röskun á ferðaþjónustu fatlaðra og akstursþjónustu aldraðra. Dregið hefur verið úr allri heimahjúkrun og félagslegri heimsþjónustu og einungis bráðatilvikum sinnt. Matarþjónusta getur raskast á morgun.
Vegagerðin hefur ákveðið að loka mjög mörgum vegaköflum víða um landið. Sjá má lista yfir lokanir Vegagerðarinnar hér. Póst- og fjarskiptastofnun mælist til þess að fólk hafi síma og snjalltæki hlaðin ef til rafmagnsleysis kemur í óveðrinu. Hér má lesa lista yfir lokanir víðar, en fjölmörgum fyrirtækjum verður lokað nú síðdegis.