„Ég hef ekki gert það endanlega upp við mig hvort hér hafi ríkt eitthvað það ástand sem hafi sýnt einhvers konar brot gagnvart neytendum eða einhverja okurálagningu. Ég spyr mig hvort slík ofurálagning geti verið tilfellið ef félögin skila engum rekstrarhagnaði. Maður hlýtur að spyrja sig að því,“ sagði Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra á þingi í dag, þegar hann var spurður að því hvort hann væri sammála mati Samkeppniseftirlitsins á því að olíufélögin hafi haft ofurálagningu á bensíni hér á landi.
Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði Bjarna um nýútkomna skýrslu Samkeppniseftirlitsins um olíumarkaðinn í óundirbúnum fyrirspurnartíma í dag. Helgi talaði um skýrsluna sem enn einn áfellisdóminn yfir olíufélögunum og framgöngu þeirra á bensínsölumarkaði. Hann sagðist vilja spyrja ráðherra samkeppnismála hvort hann taki undir það að á þessum markaði „hafi verið óviðunandi ástand um langt árabil með óhóflegum kostnaði fyrir bíleigendur í landinu.“
Bjarni var stjórnarformaður í olíufélaginu N1, á árunum 2005 til 2008, en skýrsla Samkeppniseftirlitsins tók meðal annars til þessara ára.
Bjarni sagði að það hefði enginn efast um það að fákeppni ríkti á olíumarkaði á Íslandi eins og á svo mörgum öðrum mörkuðum. „En það þýðir ekki að það geti ekki ríkt hörð samkeppni á milli fákeppnisaðilanna.“ Þá væru félögin ólík í eðli starfsemi og hvað varðar rekstrarafgang.
Helgi spurði Bjarna einnig um það hvort honum þyki koma til greina að taka upp opinbera verðstýringu á þessum markaði. Því hafnaði Bjarni og sagðist telja opinbera verðlagningu afleita. „Hversu lengi eigum við að una því að milljarðar séu teknir af heimilunum á hverju ári í óhóflegt okur á bensíni án þess að hafast nokkuð að hér í þinginu?“ spurði Helgi Bjarna þá.
„Ef ætti að fara út í einhverja opinbera verðlagningu hér þá þyrftum við að fara í sameiginleg innkaup til landsins sýnist mér, eða hvernig eiga menn að sitja uppi með eitt sameiginlegt opinbert verð sem hafa ólíkan innkaupakostnað. Það er mörgum spurningum ósvarað þegar þessu er slengt fram,“ svaraði Bjarni. Hann sagðist jafnframt fagna útgáfu skýrslunnar og sagðist endilega vilja taka umræðuna um þessi mál með „markvissari og málefnalegri hætti“ en í fyrirspurnartíma þingsins.