Halldór Bjarkar Lúðvígsson, framkvæmdastjóri fjárfestingabankasviðs Arion banka, segir að það hafi aldrei verið rætt milli hans og starfsmanna sérstaks saksóknara að fallið yrði frá ákæru gegn honum fyrir vitnisburð í hinu svokallaða CLN-máli líkt og Hreiðar Már Sigurðsson, fyrrum forstjóri Kaupþings, hélt fram fyrir héraðsdómi Reykjavíkur í morgun. Halldór Bjarkar segir að hann heldur aldrei breytt framburði sínum í málinu né hafi hann búið yfir innherjaupplýsingum þegar hann seldi hlutabréf skömmu fyrir hrun.
Þeir sem eru ákærðir í CLN-málinu fengu aðgang að tölvupóstum Halldórs Bjarkars og annars vitnis eftir að héraðsdómur Reykjavíkur féllst á kröfu þeirra þar um í síðustu viku. Hreiðar Már fór yfir innihald tölvupósta Halldórs Bjarkars við upphaf aðalmeðferðar málsins í morgun. Í endursögn mbl.is á ræðu hans segir að Hreiðar Már hafi sagt að framburður Halldórs Bjarkars í málinu væri rangur og að hann hafi snúið framburði sínum við í miðju máli. Auk þess hafi Halldór Bjarkar selt öll bréf sín í tveimur félögum, meðal annars Exista, vegna vitneskju sinnar sem starfsmaður Kaupþing. Hreiðar Már sagði að Halldór Bjarkar hafi verið í daglegum samskiptum við Exista og því búið yfir meiri upplýsingum en almennir fjárfestar um stöðu félagsins.
Sérstakur saksóknari hefði tvívegis ákært menn fyrir innherjasvik en það hafi ekki verið gert í tilfelli Halldórs Bjarkars. Þessar upplýsingar um viðskipti Halldórs Bjarkar og meint innherjabrot hans skipti höfuðmáli varðandi hvernig hann hefði breytt framburði sínum hjá sérstökum saksóknara og tekist að „sleppa við ákæru sérstaks saksóknara og sitja á þýfi sínu.“
Hreiðar Már sagði að söluandvirði bréfanna hefði verið um fimm milljóniir krona. Halldór Bjarkar hefði setið áfram á því andvirði og haldið áfram í framkvæmdastjórn Kaupþings og Arion banka, en Halldór Bjarkar starfar þar í dag sem framkvæmdastjóri fjárfestingabankasviðs. Hreiðar Már sagði Halldór Bjarkar hefði fengið um 150 milljónir króna í laun á þeim sjö árum sem liðin væru frá hruni.
Í samtali við Kjarnann í dag sagðist Halldór Bjarkar aldrei hafa breytt framburði sínum í CLN-málinu. „Það var aldrei rætt milli mín eða starfsmanna sérstaks saksóknara að fallið yrði frá ákæru á hendur mér fyrir vitnisburð í þessu máli og að mér vitandi hafa þau viðskipti sem Hreiðar Már vísar til aldrei verið til rannsóknar hjá sérstökum saksóknara, enda bjó ég aldrei yfir innherjaupplýsingum.“ Hann mun bera vitni í málinu á miðvikudag.
Samkvæmt upplýsingum Kjarnans hafa tveir menn fengið réttarvernd gegn ákæru í hrunmálum þar sem upplýsingar bentu til þess að þeir hafi brotið af sér, gegn því að þeir veittu saksóknara upplýsingar sem styrkti málatilbúnað hans. Annar mannanna, Rósant Már Torfason, hlaut slíka réttarvernd árið 2009. Hinn, Magnús Pálmi Örnólfsson, hlaut réttarverndina með bréfi frá ríkissaksóknara í febrúar 2014. Hann hafði áður haft réttarstöðu grunaðs manns í Stím-málinu svokallaða. Þeir störfuðu báðir fyrir Glitni fyrir hrun. Halldór Bjarkar hefur því ekki hlotið slíka réttarvernd.