Ýmislegt bar til tíðinda um liðna helgi, jafnt á innlendum og erlendum vettvangi. Að venju var Kjarninn þéttsetinn áhugaverðum fréttaskýringum.
Síðdegis á föstudag birtist fréttaskýring eftir Magnús Halldórsson um þann mikla öldudal sem Brasilía er að ganga í gegnum eftir uppgangstíma síðustu ára. Ómar Þorgeirsson, sagn- og markaðsfræðingur búsettur í Moskvu, fjallaði síðar sama dag um nöturlegt hlutskipti heimilislausra í Rússlandi.
Á laugardaginn sagði Kjarninn frá því að fjárlagafrumvarpið væri komið úr nefnd og sé þar af leiðandi tilbúið fyrir aðra umræðu. Fyrr hafði Guðlaugur Þór Þórðarson, varaformaður fjárlaganefndar, sagt að kerfið verði sig með öllum ráðum fyrir niðurskurði.
Kristinn Haukur Gunnarsson skrifaði fréttaskýringu um að straumur flóttafólks til Evrópu frá stríðshrjáðum löndum, einkum Sýrlandi, hafi skapað flókna stöðu á Balkanskaga. Þá var sagt frá því að New York Times hafi birt leiðara á forsíðu sinn í fyrsta sinn frá árinu 1920. Málefnið: Byssufaraldurinn í Bandaríkjunum.
Kjarninn hélt áfram að fjalla um loftlagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem er nú rúmlega hálfnuð. Birgir Þór Harðarson blaðamaður er nú mættur til Parísar og mun fjalla um síðari helming ráðstefnunnar þaðan.
Hér heima bar það helst til tíðinda að Ólafía B. Rafnsdóttir, formaður VR, sagði það ekki boðlegt að Helgi Magnússon, varaformaður stjórnar Lífeyrissjóðs Verzlunarmanna, sitji í stjórnum fyrirtækja sem sjóðurinn á í. Helgi er umsvifamikill fjárfestir og á í sumum þeirra félaga sem sjóðurinn á í.
Á sunnudag greindum við frá því að Síminn og Vodafone séu að fara í samstarf við 365 um að selja einstaka fótboltaleiki, og í framtíðinni aðra viðburði, í svokallaðri Pay Per View þjónustu í Sjónvarpi Símans og Vodafone Sjónvarpi.
Borgþór Arngrímsson, fréttaritari Kjarnans í Kaupmannahöfn, sagði frá því að Airbus A380 farþegaþotan, risastálfuglinn, sé byrjuð að fljúga til borgarinnar.
Í Frakklandi hefur François Hollande forseti verið maður mannanna undanfarin misseri, að minnsta kosti fram að héraðskosningunum í gær. Á skömmum tíma hefur Hollande breyst úr litlausum og óvinsælum forseta í mikilvægasta stjórnmálamann heims. Freyr Eyjólfsson útskýrði af hverju.
Magnús Halldórsson fór í gegnum þann mikla vöxt sem verið hefur í ferðaþjónustu að undanförnu, einkum utan háannatímans á sumrin. Gistináttum í október fjölgaði um 30 prósent milli ára.
En sú fréttaskýring sem vakti líkast til hvað mesta athygli var skýring Herdísar Sigurgrímsdóttur um rannsóknarskýrslu í Noregi sem sýndi fram á það að vísbendingar um heimilisofbeldi voru ekki teknar alvarlega í fjölmörgum tilvikum. Að lokum voru konurnar, fórnarlömbin í langflestum tilvikum, myrtar.