Hjúkrunarfræðingurinn Ásta Kristín Andrésdóttir var í morgun sýknuð af ákæru um manndráp af gáleysi. Héraðsdómur Reykjavíkur sýknaði bæði hana og Landspítalann. RÚV greinir frá þessu.
Málið er án fordæma, og þetta var í fyrsta skipti sem spítalinn og starfsmaður hans eru ákærðir á grundvelli hegningarlaga, eftir að sjúklingur lést á gjörgæslu. Fjölskylda sjúklingsins hafði lýst því yfir að hún væri mótfallin því að hjúkrunarfræðingur væri gerður ábyrgur fyrir andláti hans.
Samkvæmt ákærunni á hendur Ástu og spítalanum „láðist að tæma loft úr kraga (belg) barkaraufarrennu (barkaraufartúbu) þegar hún tók Y úr öndunarvél og setti talventil á barkaraufarrennuna. Ákærðu var vel kunnugt um að henni bar að tæma loftið úr kraganum, líkt og vinnulýsing um notkun talventilsins kveður á um.“ Afleiðingar hafi verið þær að sjúklingurinn gat einungis andað að sér lofti en ekki frá sér, fall varð á súrefnismettun og blóðþrýstingi og hann lést skömmu síðar.
Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, hefur sagt að málatilbúnaður saksóknara sé skaðlegur. Það hafi verið mjög þungbært að sjá samstarfskonu dregna fyrir dóm. „Þessi málatilbúnaður ákæruvaldsins gagnvart einstaklingi, þegar ljóst er að ekki er um ásetningsbrot að ræða, er beinlínis skaðlegur enda skapar hann óvissu um störf og starfsumhverfi íslenskra heilbrigðisstarfsmanna.“