„Það vantar fólk í þetta land og við höfum gott af því að fá aðeins fleiri hingað inn hvað það varðar,“ sagði Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra á Alþingi í dag. Illugi var að svara fyrirspurn frá Óttari Proppé, formanni Bjartrar framtíðar, um íslenskukennslu fyrir innflytjendur.
Óttarr sagði það eiginlega einsdæmi á Norðurlöndum að kostnaður við tungumálakennslu innflytjenda sé ekki að fullu greiddur af ríkinu. Greiðsluhlutfal ríkisins hefði farið lækkandi og það væri orðið hamlandi fyrir innflytjendur að sækja íslenskunám. Illugi sagði átak til að bæta læsi nemenda gagnast öllum, bæði íslenskum og erlendum börnum, og miklu skipti að tryggja að öll börn geti lesið á íslensku. Það þurfi líka að horfa á móttöku flóttamanna í stærra samhengi og til lengri tíma en nokkurra mánaða. „Mér hefur fundist svolítið vanta í þessa umræðu akkúrat þann punkt sem háttvirtur þingmaður tekur hér upp, að við séum með nægilegt fjármagn.“
Óttarr benti þá á að kvótaflóttamenn væru lítill hluti af heildarmenginu. Allt í allt búi tugþúsundir útlendinga á Íslandi sem tali annað tungumál sem fyrsta mál. Hann hvatti til þess að þessi málaflokkur yrði styrktur.
„Með því að taka vel á móti útlendingum, hvort sem um er að ræða flóttamenn eða bara það fólk sem kýs að koma hingað, búa með okkur hér og starfa með okkur, eru fólgin mikil tækifæri fyrir okkur Íslendinga til að fjárfesta í þessum hópi, sérstaklega börnunum, tryggja að þau læri íslenskuna. Um leið og við lærum tungumálið lærum við líka þau gildi, þær hugmyndir og þann hugmyndaheim sem við erum sjálf sprottin upp úr og þar með auðvitað eiga þessir einstaklingar miklu betri tækifæri til að verða hluti af samfélaginu. Það vantar fólk í þetta land og við höfum gott af því að fá aðeins fleiri hingað inn hvað það varðar,“ sagði Illugi.