Til greina kemur að selja 87 prósent hlut slitastjórnar Kaupþings í Arion banka í hlutum. Verðhugmyndir slitastjórnarinnar eru fjarri genginu 0,6-0,8 af bókfærðu eigin fé bankans, líkt og rætt hefur verið um að hægt yrði að selja íslenska banka á. Hún vill fá meira fyrir Arion banka. Mikill áhugi sé erlendis frá á hlutafé í Arion banka, meðal annars frá Bretlandi og Skandinavíu. Sumir þeirra hafa skjalfest þann áhuga sinn í viljayfirlýsingum og komið til Íslands vegna áhuga síns. Þetta kemur fram í viðtali við Jóhannes Rúnar Jóhannsson, sem sæti á í slitastjórn Kaupþings, í ViðskiptaMogganum í dag.
Ljóst er að mikil uppstokkun er framundan í íslensku bankakerfi. Ríkissjóður ætlar að selja 30 prósent hlut í Landsbankanum á næsta ári og vilji er til þess að selja Íslandsbanka, sem ríkið fær sem hluta af stöðugleikaframlagi Glitnis, í náinni framtíð. Í samkomulagi slitastjórnar Kaupþings við stjórnvöld, sem gerir henni kleift að ljúka slitum á búi bankans, er gert ráð fyrir því að selja verði Arion banka innan þriggja ára.
Í viðtalinu við Jóhannes Rúnar kemur hins vegar fram að slitastjórnin er ekki að flýta sér að því að selja bankann. Hann segir þær verðhugmyndir sem hafi verið ræddar, að virði bankans sé 0,6-0,8 af bókfærðu eigin fé hans, séu að hans mati óraunhæfar og að í bókum Kaupþings sé verðmiðinn allt annar. Þó sé erfitt að finna rétta verðmiðann. „Sitt sýnist hverjum í því. Arion banki er hins vegar vel rekinn banki, bæði á íslenskan mælikvarða og ekki síður alþjóðlegan. Hann er skipaður hæfum stjórnendum sem hafa vakið eftirtekt og góðu starfsfólki. Hann hefur skilað góðum árangri undanfarin ár. Hagnaður hefur verið viðunandi, arðsemi eigin fjár stöðug og góð og það hefur verið vaxandi þróun. Það eru ágætir vaxtarmöguleikar innan bankans, hann er leiðandi á mörgum sviðum bankastarfsemi og innanhúss eru margar góðar eignir. Hann er búinn að fara í gegnum endurskipulagningu og lánabókin meðal annars verið tekin í gegn. Þannig að grunnurinn sem bankinn stendur á er mjög traustur og það hefur auðvitað áhrif á verðið.“
Jóhannes Rúnar segir að slitastjórnin hafi hitt flesta stærstu fjárfestingabanka Bretlands, og víðar frá, vegna áhuga á hlutafé í Arion banka. „Allir þessir aðilar vilja komast að verkefninu og taka þátt í því og allir telja sig geta selt að minnsta kosti hluta bankans erlendis. Þessir fundir hafa komið til að frumkvæði þeirra og þeir hafa í mörgum tilvikum lagt í mjög mikla vinnu við að greina bankann og sölumöguleikana.“
Gegn áformum lífeyrissjóða
Ljóst er að viðtalið við Jóhannes Rúnar er ekki í takt við þær væntingar sem stærstu lífeyrissjóðir landsins hafa haft gagnvart því að eignast Arion banka. Kjarninn greindi frá því 14. nóvember síðastliðinn að lífeyrissjóðir landsins ætli sér að reyna að kaupa bankann. Þeir ætluðu hins vegar ekki að taka þátt í þeim kaupendahópum sem fjármálafyrirtækin Virðing og Arctica Finance höfðu verið að reyna að setja saman, þrátt fyrir mikinn þrýsting á stærstu sjóði landsins um að gera það.
Stærstu lífeyrissjóðir landsins, Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR), Lífeyrissjóður verslunarmanna og Gildi lífeyrissjóður ætluðu þess í stað sjálfir að leiða kaupin. Öllum lífeyrissjóðum landsins hefur verið boðið að vera með og ef kaupin myndu ganga eftir ætluðu lífeyrissjóðirnir að skrá Arion banka á markað strax á næsta ári. Tveir fundir voru haldnir með slitastjórninni í nóvember en þeir voru hvorugir formlegir og ljóst var á þeim að sala á Arion banka til lífeyrissjóðanna, á því verði sem þeir hafa í huga, var ekki forgangsmál hjá slitastjórninni. Lífeyrissjóðirnir telja að verðmiðinn á Arion banka ætti að vera í kringum 100 milljarðar króna, en eigið fé bankans var 175 milljarðar króna í lok september síðastliðins. Það þýðir að lífeyrissjóðirnir eru að meta 87 prósent hlut Kaupþings í Arion banka á 0,6-0,7 af bókfærðu eigin fé hans.