Almenningur á Íslandi ber mest traust til lögreglunnar, Háskóla Íslands, Háskólans í Reykjavík og Ríkisútvarpsins. Lítið traust er borið til bankakerfisins, Fjármálaeftirlitsins og ríkisstjórnarinnar. Þetta kemur fram í nýrri könnun MMR.
Traust Íslendinga til stofnanna minnkar á milli ára. Traust til Háskóla Íslands og Háskólans í Reykjavík minnkar um átta prósentustig milli ára og sömu sögu má segja um traust til fjölmiðla. Líkt og greint var frá fyrr í vikunni hefur traust til lögreglunnar minnkað um 5% milli ára.
Traust til ríkisstjórnarinnar eykst um eitt prósent, en breytingin er innan skekkjumarka, og traust til stjórnarandstöðunnar minnkar um 4% milli ára.
Vikmörk í könnunum af þessu tagi eru allt að 3,1 prósent, sem þýðir að raunveruleg niðurstaða er líklega á bilinu 3,1 prósentum lægri til 3,1 hærri en niðurstaða könnunarinnar.