Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, segist vera upp með sér að hafa fengið skvettu úr koppi Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra. Hann muni þvo hana af sér og þurrka. Að öðru leyti vill hann ekki tjá sig um efni greinar sem forsætisráðherra skrifaði í Fréttablaðið í morgun. Frá þessu er greint á vef RÚV.
Grein Sigmundar Davíðs var andsvar við grein sem Kári skrifaði í sama blað daginn áður. Þar hafði Kári gagnrýnt ríkisstjórnina harkalega fyrir fjársvelti gagnvart heilbrigðisþjónustu og linkind gagnvart kröfuhöfum föllnu bankanna. Hann sagði lýðnum ljóst að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs myndi ekki sitja lengur en eitt kjörtímabil og hét því að hann og nokkrir félagar hans myndu safna 100 þúsund undirskriftum frá fólki sem myndi heita þess að kjósa ríkisstjórnarflokkanna aldrei aftur ef framlög til Landsspítalans yrðu ekki aukin.
Sigmundur Davíð sagði í sinni grein að það megi vera öllum ljóst hversu rangt og beinlínis óheiðarlegt það sé að saka þau stjórnvöld sem nú sitji, og hafi forgangsraða mest í þágu heilbrigðismála, að vera viljandi að svelta heilbrigðiskerfið. Það að gunguskapur stjórnvalda gagnvart erlendum kröfuhöfum föllnu bankanna hafi orðið til þess að ekki séu 150 milljarðar króna til staðar til að setja í heilbrigðiskerfið sé ómerkilegt bull. Þá gaf forsætisráðherra sterklega í skyn að Kári væri yfirlætisfullur besservisser sem telji alla aðra vera fábjána og virtist auk þess telja að Kári væri á leið í forsetaframboð.