Lífeyrisskuldbindingar ríkissjóðs vegna nýgerðra kjarasamninga eru tugum milljarða króna hærri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Brúttótala lífeyrisskuldbindinga eftir að gert hefur verið ráð fyrir launahækkunum sem samið hefur verið um á þessu ári er t.d. vanmetin um 20-30 milljarða króna. Þetta kemur fram í Morgunblaðinu í dag.
Þar segir einnig að útgjöld til almannatrygginga verði tæplega 100 milljarðar króna á næsta ári, en þau hafa aldrei verið hærri í sögunni að raunvirði. Þá var greint frá því í gær að Vigdís Hauksdóttir, formaður fjárlaganefndar, hefði lagt fram breytingartillögu við breytingartillögu fjárlaganefndar um fjárlög ársins 2016 þar sem farið er fram á 1,2 milljarða króna viðbótarheimild til að mæta áhrifum af launahækkun kennara á árinu 2015. Láðist að gera ráð fyrir þessari hækkun í upprunalegu breytingartillögu fjárlaganefndar.
Þorsteinn Víglundsson, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, segir við Morgunblaðið að búið sé að leggja slíkar byrðar á rekstur ríkissjóðs að ríkið verði að bregðast við með verulegri hagræðingu. Á þessum stað í hagsveiflunni ætti ríkið að vera með góðan afgang af rekstri sínum en með sama áframhaldi verði ríkið komið í umtalsverðan hallarekstur þegar hagvaxtarskeiðinu lýkur.