Halda á hlýnun heimsins vel undir tveimur gráðum og miða við að ná henni í 1,5 gráður. Samkomulag þess efnis verður lagalega bindandi, samkvæmt því sem kemur fram í drögum að lokasamkomulagi á loftslagsráðstefnunni í París. Drögin voru birt fyrir skömmu, og síðar í dag munu ríkin ákveða hvort þau verða samþykkt.
Ef þau samþykkja verður um að ræða sögulegan dag og dag sem markar miklar breytingar, að sögn Laurent Fabius, utanríkisráðherra Frakklands. Hann greindi frá nokkrum atriðum í drögunum og uppskar fagnaðarlæti úr sal þegar hann sagði að unnið yrði að því að hlýnun jarðar verði nær 1,5 gráðum. „Við þurfum að sýna heiminum að sameiginlegt átak er meira virði heldur en aðgerðir hvers og eins,“ sagði hann.
Ban Ki-Moon, framkvæmdastjóri Sameinuðu þjóðanna, talaði einnig á fundinum í dag og sagði samkomulagsdrögin vera söguleg. „Samkomulagið lofar að færa heiminn inn á nýja braut. […] Klárum nú málið. Allur heimurinn fylgist með.“
Meðal þess sem er nýtt í samkomulagsdrögunum sem voru kynnt í dag er viðmiðið um 1,5 gráðu hlýnun, sem er mun metnaðarfyllra og erfiðara markmið en tveggja gráðu hlýnun. Þá er kveðið á um að á fimm ára fresti verði kannað hvernig ríkjunum gengur með loftslagsáætlanir sína. Hins vegar er búið að taka út tímalínu yfir það hvernig eigi að skipta út jarðefnaeldsneyti á seinni hluta aldarinnar.
Fjölmörg félagasamtök hafa strax sent frá sér álit á samkomulagsdrögunum og viðbrögðin eru að mestu leyti jákvæð. Greenpeace segir hjólin snúast hægt í loftslagsaðgerðum, en þau hafi snúist í París.
Samkomulagsdrögin hafa hins vegar líka verið gagnrýnd harðlega, en í viðtali við Guardian segir James Hansen, sem vann hjá NASA og er álitinn sá maður sem kom loftslagsáhyggjum hvað mest á kortið, að samkomulagið séu svik. „Það er bara kjaftæði að þau segi: „Við ætlum að hafa tveggja gráðu hlýnunartakmark og svo reyna að gera aðeins betur á fimm ára fresti.“ Þetta eru bara innantóm orð. Það eru engar aðgerðir, bara loforð. Á meðan jarðefnaeldsneyti virðast vera það ódýrasta sem eru í boði, þá verður haldið áfram að brenna því.“ Hann segir að útblástur er ekki skattlagður þvert á alla verði enginn árangur. Slíkt muni bara koma í veg fyrir allra verstu afleiðingar loftslagsbreytinga.
Ráðherrafundur hefst rétt fyrir klukkan þrjú að íslenskum tíma og þar verður tekin endanleg ákvörðun um samkomulagið.