Ákvæði laga um útlendinga eru alltof þröng og mikilvægar breytingar myndu verða á löggjöfinni ef nýtt frumvarp til laga um útlendinga verður að veruleika. Þetta kemur fram í máli Unnar Brár Konráðsdóttur, þingmanns Sjálfstæðisflokksins, í Fréttablaðinu í dag.
Unnur Brá sat í þverpólitískri þingmannanefd sem gerði breytingar á útlendingamálum og skilaði af sér frumvarpi til laga í ágúst síðastliðnum. Ólöf Nordal innanríkisráðherra hafði sagt að stefnt yrði að því að frumvarpið yrði lagt fram á haustþingi, en ljóst er að það verður ekki.
„Leiðirnar til að fá atvinnuleyfi eru til dæmis of þröngar. Það skýrist af ýmsu. Verkalýðshreyfingin hefur verið með mikla fyrirvara á að rýmka ákvæði fyrir fólk sem vill koma hingað til að vinna,“ segir Unnur Brá. Hælisleitendakerfið hafi verið búið til fyrir fólk í mikilli neyð, en þeir einstaklingar sem leiti að betra lífi og vilji vinna eigi að geta óskað eftir því að dvelja á Íslandi á öðrum grundvelli.
Ólína Þorvarðardóttir, þingmaður Samfylkingarinarr, lagði til á þingi í gær að skipaður yrði umboðsmaður flóttamanna. Það sé greinilegt að Útlendingastofnun hafi hagsmuni flóttamanna ekki að leiðarljósi, heldur hafi aðeins það lögbundna hlutverk að úrskurða í málum þeirra.