Líf Magneudóttir, varaborgarfulltrúi VG í borgarstjórn og fyrrverandi formaður Mannréttindaráðs borgarinnar, segir að hún komi til með að sakna margra skemmtilegra verkefna sem voru framundan í ráðinu. Þetta kom fram í þættinum á Sprengisandi á Bylgjunni í dag.
Líf var sett af sem formaður mannréttindaráðs Reykjavíkurborgar, í byrjun desember. Sóley Tómasdóttir, oddviti Vinstri grænna í Reykjavík og forseti borgarstjórnar, tók ákvörðunina um að setja Líf, sem er flokkssystir hennar, af. Sóley settist sjálf í formannsstólinn í staðinn.
Líf var skipuð formaður ráðsins þegar meirihluti var myndaður í borginni í júní 2014 en á sama tíma tók Sóley við hlutverki forseta borgarstjórnar. Fjölmiðlar hafa greint frá því að samstarfserfiðleikar hafi verið á milli Lífar og Sóleyjar um langa hríð.
Á Sprengisandi í morgun var hún spurð að því hvort hún hefði stigið á tær Sóleyjar í aðdraganda breytinganna. „Ég get eiginlega bara ekki svarað fyrir það. Ekki viljandi, nei alls ekki. Ég hef verið að sinna minni vinnu og vandað mig, eins og maður á að gera í stjórnmálum.“ Sigurjón M. Egilsson, stjórnandi þáttarins, spurði hana einnig hvort hún teldi ekki að kjósendur þeirra Sóleyjar ættu rétt á að vita hvað hafi gerst. Líf sagði eðlilegt að Sóley svaraði fyrir það. Það er í samræmi við það sem hún hefur sagt um málið hingað til.