Marine Le Pen og félagar hennar í hægri öfgaflokknum National Front, eða Þjóðfylkingunni, náðu ekki völdum í neinu héraði Frakklands, samkvæmt útgönguspá. Í dag fór fram seinni umferðin í sveitarstjórnarkosningum í landinu.
Útgönguspáin bendir til þess að Þjóðfylkingin hafi orðið þriðji stærsti flokkurinn í seinni umferðinni. Flokkurinn fékk flest atkvæði í sex af þrettán héröðum í fyrri umferðinni fyrir viku síðan.
Le Pen hefur viðurkennt ósigurinn og heitir því að halda áfram að berjast fyrir sínum málstað. „Ekkert getur stöðvað okkur. Lengi lifi franska lýðveldið! Lengi lifi þjóðin" Lengi lifi Frakkland!" sagði hún við stuðningsmenn sína í kvöld.
Bæði Le Pen og frænka hennar Marion Marachal-Le Pen höfðu fengið yfir 40% atkvæða í sínum héröðum í fyrri umferðinni, en nú í seinni umferðinni virðist sem fólk sem kaus sósíalista í fyrri umferðinni hafi komið á kjörstað til að kjósa repúblikanaflokk Nicolas Sarkozy.
Xavier Bertrand, sem er leiðtogi repúblikana í Nord-Pas-de-Calais-Picardie, sagði í kvöld að Frakkar hefðu kennt samstöðu og hugrekki. „Hér stöðvuðum við framgang Þjóðfylkingarinnar.“
En forsætisráðherrann Manuel Valls var ekki eins jákvæður. Hann varaði við því að „hættan sem stafar af hægri öfgum er ekki farin neitt, langt því frá.“
Og Sarkozy sagði að nú væri tími til þess að fara í djúpa rökræðu um það hverju Frakkar hafi áhyggjur af.