Framsóknarflokkurinn eykur marktækt við sig fylgi frá því í október, samkvæmt nýrri könnun frá MMR. Framsóknarflokkurinn mælist með 12,9 prósenta fylgi nú samanborið við 10,8% í síðustu könnun. Fylgi Sjálfstæðisflokksins mældist 22,9%, en var 23,7% í síðustu könnun. Stuðningur við ríkisstjórnina mælist nú 35,6%, en í síðustu könnun var fylgið 33,1% og þar á undan, í lok september, mældist það 31,4%.
Píratar halda áfram að vera langstærsti flokkur landsins, níunda mánuðinn í röð. Píratar eru með 35,5% fylgi í könnuninni, sem er ívið meira en í síðustu könnun, þegar 34,2% sögðust styðja Pírata.
Samfylkingin mælist nú með 9,4% fylgi í könnuninni, en í síðustu könnun mældist fylgið 10,5%. Vinstri-græn mælast með sama fylgi og Samfylkingin, 9,4%, en í síðustu könnun var VG með 9,9%. Björt framtíð mælist með sama fylgi og síðast, 4,6%.
Í könnunum MMR eru vikmörk allt að 3,1 prósent, sem þýðir að raunverulegt fylgi flokkanna er líklega einhvers staðar á bilinu 3,1 prósentum lægra til 3,1 prósentum hærra en niðurstaða könnunarinnar gefur til kynna.