Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, sagði frá því á þingi í morgun að henni hefði liðið mjög illa þegar hún sat við hliðina á Jóni Gunnarssyni, þingmanni Sjálfstæðisflokksins og formanni atvinnuveganefndar, á síðasta þingi. „[Ég] gerði allt sem ég gat til að fá að vera flutt. Mig langaði oft ekki í vinnuna því mér leið svo illa við hliðina á þessum manni,“ sagði hún í morgun.
Hún hafði í gærkvöldi skrifað færslu á Facebook þar sem hún sagði að Jón myndi aldrei biðjast afsökunar á sínum „dylgjum og mannvonsku“ í garð Bjarkar Guðmundsdóttur listamanns. „Ég þurfti að sitja við hliðina á honum í heilt ár og þurfti nánast að leita mér áfallahjálpar vegna dónaskapar hans enda er hann þekktur fyrir að tuddast áfram yfir allt og alla á þinginu.“ Í kjölfar viðtals við Björk fyrir helgi og ummæla sem hún viðhafði um Sigmund Davíð Gunnlaugsson og Bjarna Benediktsson spurði Jón að því hvort Björk borgaði skatta hér á landi og sagði hana daufa til augnanna.
Jón kom fyrstur í ræðustól Alþingis í morgun til þess að lýsa yfir furðu sinni á ummælum Birgittu á Facebook.
Í kjölfar þess kom Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, í ræðustól og sagðist hafa orðið fyrir miklum vonbrigðum með ræðu Jóns. „Ég hélt að hann ætlaði að koma upp og lýsa iðrun vegna ummæla sinna um Björk Guðmundsdóttur. [...] Mér fannst það nú ákveðið hámark á súrrealismanum að í stað þess kom háttvirtur þingmaður upp og krafðist afsökunarbeiðni frá Birgittu Jónsdóttur.“ Jón hefði í stað þess að biðjast sjálfur afsökunar ráðist á samþingmann sinn.
Það var þá sem Birgitta kom í ræðustól og sagði frá því að henni hefði liðið mjög illa sitjandi við hlið Jóns. Bæði forseti þingsins, margir þingmenn og skrifstofustjóri Alþingis hefðu vitað af því. Hún hafi að lokum fengið leyfi til að skipta um sæti ef hún fyndi annan þingmann til að skipta um sæti við sig. Enginn hafi fengist til þess.
Áður en formleg dagskrá þingsins hófst komu svo bæði Jón og Birgitta aftur í ræðustól til að lesa upp þau ummæli sem hvort um sig hafði viðhaft á netinu. Jón sagði að hann bæri mikla virðingu fyrir listakonunni Björk, en það hljóti að mega svara „þessu fólki“ þegar það kysi að tala niður til forsætis- og fjármálaráðherra.
Birgitta hafði rétt hafið að lesa sín ummæli, sem lesa má hér í færslunni að ofan, þegar fussað var úr þingsal. Hún stoppaði og spurði hver hefði fussað, og Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sagðist hafa gert það.