Dómsuppsaga í Stím-málinu svokallaða er komin á dagskrá héraðsdóms Reykjavíkur og er fyrirhuguð klukkan 14 þann 21. desember næstkomandi, þremur dögum fyrir jól.
Málið snýst annars vegar um tugmilljarða króna lánveitingar til félagsins Stím ehf., í nóvember 2007 og janúar 2008. Mál ákæruvaldsins byggir meðal annars á því, að Stím hafi verið búið til af starfsmönnum Glitnis í þeim tilgangi að kaupa hlutabréf í bankanum sjálfum og stærsta eiganda hans, FL Group, sem bankinn sat síðan uppi með á veltubók sinni. Enginn markaður var fyrir bréfin á því verði sem Stím greiddi fyrir þau, samkvæmt málatilbúnaði ákæruvaldsins.
Í málinu eru ákærðir, Lárus Welding, fyrrum forstjóri Glitnis, Jóhannes Baldursson, fyrrverandi framkvæmdastjóri markaðsviðskipta Glitnis, og Þorvaldur Lúðvík Sigurjónsson, fyrrverandi forstjóri Saga Capital. Þeir neita allir alfarið sök, en Lárus og Jóhannes eru ákærðir fyrir umboðssvik og Þorvaldur fyrir hlutdeild í þeim. Ákæruna í málinu má lesa í heild sinni hér.
Mennirnir neita allir sök. Kjarninn birti greinargerð lögmanns Lárusar í heild sinni í aðdraganda þess að aðalmeðferð í málinu hófst í nóvember.