„Það sem er að gerast er það að menn eru í spíral niður á við, niður á við með þingið í virðingu gagnvart þjóðinni. Sjálfsvirðing þingsins er í fallandi spíral niður á við,“ segir Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra um stöðuna í þinginu. Bjarni sagði þetta á Alþingi í morgun, þegar rætt var um áframhaldandi umræðu um fjárlagafrumvarpið. Samþykkt var að halda næturfund í dag, en önnur umræða um fjárlögin stendur enn. Umræðan er orðin sú lengsta um fjárlögin nokkru sinni.
„Umræðan er fyrir löngu síðan orðin allt of löng,“ sagði Bjarni líka. Hann sagðist vera ósammála þeim sem segi að það sé allt í lagi að halda umræðunni áfram. Hann væri líka ósammála þeim sem segðu að líklega yrði umræðumetið sem sett hefur verið nú aldrei verið slegið. „Menn eru í algjörri sjálfheldur hér og á meðan að menn eru í þessum spíral niður á við, þá getur enginn fullyrt að við séum búin að finna botninn.“ Það væri alveg eins líklegt að við afgreiðslu fjárlaga á næsta ári eða eftir nokkur ár muni menn nota þetta slæma fordæmi til að réttlæta „enn lengri og vitlausari“ umræðu.
Þingmenn minnihlutans mótmæltu þessari ræðu Bjarna. Árni Páll Árnason, formaður Samfylkingarinnar, sagði að það væru efnislegar ástæður fyrir lengd umræðunnar og Katrín Júlíusdóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, rifjaði upp að það met sem stjórnarandstaðan hefur slegið núna hafi verið sett árið 2012, af núverandi stjórnarflokkum meðal annars. Þá hafi engar sérstakar efnisbreytingar verið lagðar til, heldur hafi tilgangurinn með langri umræðu verið að „ganga endanlega frá stjórnarskránni.“