Íbúðalánasjóður fær nýtt hlutverk samkvæmt frumvarpi til laga um almennar íbúðir, sem Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, lagði fram á Alþingi í dag. Frumvarpið fjallar um stofnframlög ríkis og sveitarfélaga til reksturs almennra íbúðafélaga, sem eru félagslegar leiguíbúðir. Meginmarkmiðið með frumvarpinu er að stuðla að auknu framboði húsnæðis fyrir efnaminna fólk og að húsnæðiskostnaður þess verði í samræmi við greiðslugetu.
Almenn íbúðafélög, sveitarfélög, leigufélög í eigu sveitarfélaga og starfandi leigufélög geta fengið lán á niðurgreiddum vöxtum vegna leiguíbúða fyrir þennan tiltekna hóp leigjenda.
Íbúðalánasjóði er ætlað að hafa umsjón með framkvæmd laganna, honum er ætlað að taka við umsóknum og taka ákvarðanir um veitingu stofnframlaga ríkisins. Sjóðurinn metur því hvort málefnaleg sjónarmið leiði til þess að unnt sé að veita umsækjendum stofnframlög til byggingar eða kaupa á almennum íbúðum, hvort umsóknir samræmist lögum og reglugerðum og jafnframt hvort umrætt húsnæði teljist hagkvæmt og fullnæjandi sem íbúðahúsnæði. Sjóðurinn á líka að meta það hvort þörf sé á leiguhúsnæði fyrir efnaminni leigjendur á viðkomandi svæði og hvort fjármögnun hafi verið tryggð með fullnægjandi hætti.
Ennfremur á sjóðurinn að hafa eftirlit með þeim sem hafa fengið stofnframlög frá ríkinu og rekar almennar íbúðir, samkvæmt frumvarpinu. Hann mun geta beint tilmælum um úrbætur til eigenda íbúðanna ef hann telur rekstur ekki í samræmi við lög og geta tilnefnt eftirlitsmenn til að fylgjast með íbúðunum og úrbótum.
Almenn íbúðafélög eiga að vera sjálfseignarstofnanir sem hafa það hlutverk að eiga, byggja, kaupa og reka almennar íbúðir. Þessi félög verða undanþegin tekjuskatti samkvæmt frumvarpinu, og verður það svo í þeim tilgangi að lækka húsnæðiskostnað hjá tekju- og eignaminni einstaklingum og fjölskyldum. Með frumvarpinu á að horfa sérstaklega til þessa hópa, en jafnframt verður sérstaklega horft til námsmanna, ungs fólks, aldraðra, fatlaðs fólks og fólks sem er ekki fært að sjá sér fyrir húsnæði sökum bágra félagslegra eða fjárhagsaðstæðna.
Samkvæmt frumvarpi Eyglóar getur ríkið veitt 18% stofnframlag með beinum framlögum eða með vaxtaniðurgreiðslum, og sveitarfélög geta svo veitt 12% framlag til viðbótar við það. Framlög sveitarfélaga eru háð því að Íbúðalánasjóður veiti framlag frá ríkinu, en engu að síður er gert ráð fyrir því að sveitarfélög meðhöndli umsóknir um framlög áður en Íbúðalánasjóður gerir það.
Þá gerir frumvarpið ráð fyrir því að komið verði á laggirnar sérstökum húsnæðismálasjóði sem hafi það að markmiðið að stuðla að sjálfsbærni almenna kerfisins.