„Við erum öll innflytjendur. Það er kjarninn í okkar,“ sagði Barack Obama, forseti Bandaríkjanna, í ræðu sinni við athöfn, þar sem innflytjendur í Bandaríkjunum urðu formlega bandarískir ríkisborgarar, samtals frá 25 löndum.
Obama gerði innflytjendamál, og vanda flóttamanna frá stríðshrjáðum svæðum í Sýrlandi, Írak og Afganistan, sérstaklega að umtalsefni. Sagði hann Bandaríkin vera innflytjendaland, og að það væri byggt af upp duglegu fólki sem hefðu flúið aðstæður heima fyrir og komið sér fyrir í Bandaríkjunum. „Við erum of fljót að gleyma,“ sagði hann og lagði áherslu á að kynslóðir yrðu alltaf að huga að uppruna sínum, einkum og sér í lagi þegar fólk í mikilli neyð vildi koma sér fyrir í Bandaríkjunum.
Það mætti ekki ala á óttanum um „okkur“ og „þau“, eins og oft gerðist í Bandaríkjunum þegar múslimar væru annars vegar. „Við vorum einu sinni þau. Við skulum ekki gleyma því,“ sagði Obama.
Obama sagði enn fremur að tölur sýndu að innflytjendur væru áhrifamiklir í frumkvöðlastarfsemi í Bandaríkjunum, og gengdu mikilvægu hlutverki í opinberri þjónustu. „Innflytjendur kenna börnunum okkar[...]Þeir eru hluti af Bandaríkjunum,“ sagði Obama.