Hlynur Hallsson, varamaður í stjórn RÚV, leggur til að öll stjórn fyrirtækisins segi af sér sökum þess að augljóst upplausnarástand ríki innan hennar. Þetta kemur fram í tölvupóstsamskiptum milli stjórnar RÚV og varamanna hennar í kjölfar yfirlýsingar sem dagskrárstjórar RÚV sendu þeim fyrr í dag.
Líkt og Kjarninn greindi frá fyrr í dag sendu stjórnendur og ábyrgðarmenn dagskrár Ríkisútvarpsins RÚV stjórn fyrirtækisins yfirlýsingu þar sem þeir lýsa áhyggjum sínum af „ákvörðun ríkisstjórnar Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar sem ógna ritstjórnarlegu sjálfstæði Ríkisútvarpsins.“ Undir yfirlýsinguna rita Rakel Þorbergsdóttir fréttastjóri, Þröstur Helgason, dagskrárstjóri Rásar 1, Frank Hall, dagskrárstjóri Rásar 2, Skarphéðinn Guðmundsson, dagskrárstjóri sjónvarps og Ingólfur Bjarni Sigfússon, vef- og nýmiðlastjóri.
Í samskiptum stjórnar og varamanna hennar, sem Kjarninn hefur undir höndum, kemur m.a. fram svar Guðlaugs G. Sverrissonar, formanns stjórnar RÚV, við yfirlýsingu dagskrárstjóranna. Í svarinu segir Guðlaugur dagskrárstjóranna halda fram „ alvarlegri ásökun um að ríkisstjórn Íslands hafi tekið sér beint dagskrárvald á Ríkisútvarpinu“ og sendir þeim þess vegna stefnuskjal sem samið hafi verið af Magnúsi Geir Þórðarsyni útvarpsstjóra þar sem fram kemur ósk um að auka vægi leikins efni á íslensku á kostnað annarra dagskrárliða. „Stjórn Ríkisútvarpsins ohf samþykkti þetta stefnuskjal samhljóða. Mennta- og menningarmálaráðherra svarar þessum óskum stjórnar RÚV ohf og útvapsstjóra með því að auka fjárveitingu til leikins efnis á íslensku svo nemur 175 milljónum.”
Guðlaugur segir ennfremur að hann hafi komið þessum upplýsingum á framfæri „í viðtali við Kristínu Sigurðardóttur fréttamann Ríkisútvarpsins, laugardaginn 19. september sl. Af einhverjum ástæðum hefur hún ekki talið það fréttnæmt í umræðu um fjárveitingar til Ríkisútvarpsins.“
Hlynur, sem er varamaður Vinstri grænna í stjórn RÚV, bregst ókvæða við þessu svari Guðlaugs og svarar: „Það er augljóst að upplausnarástand ríkir innan stjóirnar Ríkisútvarpsins. Ég held að skynsamlegast væri að öll stjórnin segði af sér og nýtt fólk verði kosið til starfa.“ Hann lýsir einni yfir furðu sinni á ummælum Guðlaugs um viðtalið við Kristínu og segir að í þeim komi fram „í hnotskurn afstaða hans til sjálfstæðrar fréttastofu sem hann virðist halda að eigi að vera einhverskonar málpípa hans og ríkisstjórnarinnar.“
Björg Eva Erlendsdóttir, aðalmaður Vinstri grænna, svara Guðlaugi einnig og segir viðbárur hans um að skilyrt fjárframlag ógni ekki ritstjórnarlegu frelsi sé „einskis nýtt þvaður“. Hún segir að skilyrt fjárframlag til fyrifram ákveðinnar framleiðslu framleiðenda utan veggja RUV sé dagskrárstjórn ríkisstjórnarmeirihlutans og ætti ekki að líðast, sama hvaða stefnu útvarpsstjóri hafi markað eða kynnt í stjórn. „Það er því rangt að verið sé að bera fram alvarlega ásökun á hendur ríkisstjórnarinnar.Hér er eingöngu verið að lýsa staðreyndum. Bréfið frá dagskrárstjórunum hefði betur verið komið fram fyrr, því á stjórnarfundinum í gær óskaði ég eftir því að stjórn mótmælti þessu inngripi Alþingis í ritstjórn Ríkisútvarpsins. Því var hafnað, nánast án umræðu. Ég legg til að haft verið samband við útvarpsstjóra og forystumenn fjölmiðlasamtaka annarsstaðar á Norðurlöndum og þeir fengnir til að gera áháð mat á þessu máli og í leiðinni að kanna hvort fordæmi séu einhversstaðar í nágrannalöndum fyrir fjölmiðlaafskiptum af þessu tagi.“