Samtök atvinnulífsins segja að það megi ætla að íslensk fyrirtæki í landbúnaði og sjávarútvegi verði af 15 milljarða króna tekjum á ári vegna stuðnings íslenskra stjórnvalda við viðskiptabann Evrópusambandsins og Bandaríkjanna á Rússland. Sá stuðningur leiddi til þess að Rússar settu bann á innfluttning á íslenskum matvörum í ágúst síðastliðnum.
Samtökin vilja að Ísland endurskoði stuðning sinn og segja það vera lágmarkskröfu að íslensk stjórnvöld skilyrði áframhaldandi stuðning við viðskiptabannið við það að á móti komi aukinn markaðsaðgangur að Evrópumarkaði fyrir sjávarafurðir. „Það er ekki eðlilegt að sjávarútvegurinn beri hitann og þungann af utanríkisstefnu Íslands í þessu máli.“
Þetta kemur fram í yfirlýsingu sem samtökin birtu á heimasíðu sinni í dag.
Gunnar Bragi kannast ekki við óánægju
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra greindi frá því í viðtali við DV fyrir helgi að stuðningur Íslands við viðskiptaþvinganir gagnvart Rússum hefði verið endurnýjaður. Í Fréttablaðinu í dag segir að bæði Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, vilji fara sér hægt í yfirlýsingar um afstöðu Íslands gagnvart áframhaldandi banni. Gunnar Bragi sagði við RÚV að hann kannaðist ekki við að ráðherrarnir væru ósáttir við yfirlýsingar hans um framhald á viðskiptaþvingunum gagnvart Rússlandi. „Nei, enda held ég að ef þetta væri rétt þá hlytu þeir að segja þetta við mig,“ sagði Gunnar Bragi við fréttastofu RÚV í morgun.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hafa mjög látið heyra í sér vegna ákvörðunarinnar á undanförnum dögum. Í gær birtust greinar eftir Kolbein Árnason, framkvæmdastjóra SFS, og Hauk Þór Hauksson, aðstoðarframkvæmdastjóra þeirra, í Morgunblaðinu annars vegar og Fréttablaðinu hins vegar, þar sem afstaðan var gagnrýnd og sagt að stuðningur Íslands í aðgerðunum væri einungis táknrænn. Undir væru hins vegar tugmilljarða markaðir með uppsjávarfisk. Kolbeinn endurtók þessa afstöðu í beinni útsendingu í fréttum Stöðvar 2 í gær.
Sjávarútvegsfyrirtæki landsins hafa hagnast mikið á undanförnum árum. Samanlagður hagnaður þeirra fyrir fjármagnskostnað, afskriftir og skatta á árunum 2009 til 2014 var 450 milljarðar króna. HB Grandi, næst stærsta sjávarútvegsfyrirtæki landsins og það eina sem skráð er á markaði, hagnaðist um 7,4 milljarða króna fyrir fjármagnskostnað, afskriftir og skatta á fyrstu níu mánuðum þessa árs, og jókst sá hagnaður um 15 prósent á milli ára.