Kjósendur Framsóknarflokksins eru miklu líklegri til að borða lambakjöt, annað en hangikjöt, í jólamatinn en aðrir. 23,4% þeirra sem segjast kjósa Framsóknarflokkinn ætla að borða lambakjöt. Reyndar eru kjósendur Framsóknarflokksins líka líklegri en kjósendur flestra annarra til að ætla að borða hamborgarhrygg, en 49,4% ætla að borða hamborgarhrygg. Hlutfallið er einungis hærra hjá Pírötum, en meðal þeirra ætla 59,4% að borða þennan vinsælasta jólamat.
Þetta kemur fram í nýrri könnun frá MMR.
Hamborgarhryggur er sem fyrr segir vinsælasti maturinn, og um helmingur Íslendinga ætlar að borða hann á aðfangadag. 11,5% borða lambakjöt, 7,2% ætla að borða rjúpur og 8,2% kalkún. 3,8% ætla að borða svínakjöt annað en hamborgarhrygg og tæplega 20% ætla að borða eitthvað annað en fyrrnefnda kosti. Hamborgarhryggur er óvinsælli hjá 50 ára og eldri en yngra fólki, hann er óvinsælli hjá íbúum höfuðborgarsvæðisins en á landsbyggðinni og hjá kjósendum Sjálfstæðisflokksins en annarra flokka.
Stuðningsfólk Framsóknarflokksins og Sjálfstæðisflokksins ætla frekar að borða rjúpur en stuðningsfólk annarra flokka, eða 12,7% og 11,6%, á meðan 4,9% Pírata og 3,3% Bjartrar framtíðar ætla að borða rjúpur.