Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segist ekki kannast við það að aðrir ráðherrar í ríkisstjórninni séu ósáttir við yfirlýsingar hans um framhald á viðskiptaþvingunum gagnvart Rússlandi. „Nei, enda held ég að ef þetta væri rétt þá hlytu þeir að segja þetta við mig,“ sagði Gunnar Bragi við fréttastofu RÚV í morgun.
Fram kom í Fréttablaðinu í morgun að Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra vildu báðir fara sér hægt í yfirlýsingum um afstöðu Íslands til áframhaldandi viðskiptaþvingana.
Fréttablaðið sagði samráðherra Gunnars Braga ósátta með afdráttarlausar yfirlýsingar hans um áframhaldandi þátttöku í viðskiptaþvingunum vegna innrásar Rússa á Krímskaga. Ráðherrarnir eru sagðir ósáttir vegna þess að engin formleg ákvörðun hafi verið tekin um framhaldið.
Gunnar Bragi segir hins vegar að hann viti ekki á hvaða forsendum það ætti að gerast að afstaða Íslands yrði endurskoðuð. „Það eru það miklir hagsmunir í húfi fyrir Ísland að vera stuðningsmenn laga og reglu og mótmæla því þegar alþjóðalög eru brotin.“ Ekkert hafi breyst frá því að ríkisstjórnin samþykkti að taka þátt í þvingunaraðgerðum.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi (SFS) hafa mjög látið heyra í sér vegna ákvörðunarinnar á undanförnum dögum. Í gær birtust greinar eftir Kolbein Árnason, framkvæmdastjóra SFS, og Hauk Þór Hauksson, aðstoðarframkvæmdastjóra þeirra, í Morgunblaðinu annars vegar og Fréttablaðinu hins vegar, þar sem afstaðan var gagnrýnd og sagt að stuðningur Íslands í aðgerðunum væri einungis táknrænn. Undir væru hins vegar tugmilljarða markaðir með uppsjávarfisk. Kolbeinn endurtók þessa afstöðu í beinni útsendingu í fréttum Stöðvar 2 í gær.
Gunnar Bragi segist vera meðvitaður um að þetta komi sér illa fyrir ákveðin byggðalög og hann segist fyrst og fremst hafa áhyggjur af því. „Ég vona að ríkisstjórnin geti þá samþykkt einhverjar mótvægisaðgerðir.“ Ríkisstjórnin ætti að skoða að aðstoða sveitarfélög.