Össur Skarphéðinsson, þingmaður og fyrrverandi ráðherra Samfylkingarinnar, leggur til að hollenska fanganum Angelo Uijleman verði sleppt og hann sendur strax til mömmu sinnar í Hollandi. „Eru ekki jól?“ segir Össur á Facebook síðu sinni.
Angelo er í viðtali við Fréttablaðið í dag. Honum var sleppt úr gæsluvarðhaldi rétt fyrir jól eftir tólf vikna vist í fangelsi. Hann var handtekinn í september ásamt tveimur Íslendingum og einum Hollendingi og er grunaður um aðild að umfangsmiklu fíkniefnasmygli. Hann býr við andlega fötlun og móðir hans hefur sagt að hann skilji ekki aðstæður og sé einfaldur. Hann var vistaður í einangrun á Litla-Hrauni í átta vikur og var svo í nokkrar vikur á Kvíabryggju.
Í Fréttablaðinu í dag segir hann að honum hafi verið boðin vinna og sagt að hann ætti að fara í ferðalag. Hann segir frá vist sinni í fangelsum landsins og ber Kvíabryggju og föngunum þar mjög vel söguna. Hann hafi alltaf búið með mömmu sinni og sé vanur að verja jólunum með henni. „Ég sakna hennar en hún á ekki pening til að koma strax“ segir Angelo meðal annars.
„Angelo er einföld og sérlega jákvæð sál, sem fíkniefnafantar buðu í ókeypis ferð til Íslands – og létu flytja dóp og kristaltært að hann hafði enga hugmynd um það. Hann er búinn að vera á Kvíabryggju, Litla-Hrauni, og er núna á Hjálpræðishernum. Hann ber öllum vel söguna, sérstaklega löggunni og bankamönnum á Kvíabryggju sem kenndu honum á þvottavél og spiluðu við hann. Honum fannst reyndar Kvíabryggja dásamlegur staður því þar var svo góður matur og gott fólk,“ skrifar Össur á Facebook.
„Í þorskastríðunum sýndu Íslendingar inn í hjarta sitt og slepptu landhelgisbrjótunum úr fangelsi rétt fyrir jólin og sendu þá heim til fjölskyldna sinna í Bretlandi. - Af hverju hleypum við ekki Angelo strax heim til mömmu sinnar í Hollandi?“