Shinzo Abe, forsætisráðherra Japans, hefur beðist innilegrar afsökunar á kynlífsþrælkun sem suður-kóreskar konur voru hnepptar í í seinni heimstyrjöldinni og segir Japan viðurkenna mikla ábyrgð í málinu. Jafnframt mun Japan greiða bætur sem samsvara rúmum milljarði íslenskra króna vegna þrælkunarinnar. Stjórnvöld í Suður-Kóreu munu útdeila bótunum úr sjóði.
Samkomulag um þetta hefur náðst á milli Japans og Suður-Kóreu eftir áratuga umræður. Málið hefur lengi verið eitt helsta deilumál ríkjanna tveggja en tilkynnt var um niðurstöðuna eftir fund utanríkisráðherra í Seúl í dag.
Allt að 200 þúsund konur voru neyddar í kynlífsþrælkun við japanska hermenn í seinni heimstyrjöldinni, og tugir þúsunda þeirra voru kóreskar. Aðrar konur komu frá Kína, Filippseyjum, Indónesíu og Taívan. Aðeins 46 konur frá Suður-Kóreu, sem neyddar voru í kynlífsþrælkun, eru enn á lífi.
Japanir hafa haldið því fram að málið hafi verið til lykta leitt með samkomulagi árið 1965, þar sem diplómatískum tengslum ríkjanna var komið á og Japan veitti Suður-Kóreu efnahagsaðstoð og lán. Japanir báðust afsökunar á málinu í yfirlýsingu þáverandi stjórnvalda árið 1993, en Suður-Kóreubúar hafa verið tregir til að taka afsökunarbeiðnum, m.a. vegna þess að ekki hefur verið talið að Japanir viðurkenni lagalega ábyrgð sína og ekki gengið nógu langt í að biðjast afsökunar.
Nú munu stjórnvöld í Suður-Kóreu telja málinu endanlega lokið, ef japönsk stjórnvöld standa við sitt. Hluti af samkomulaginu er að bæði ríki lofa að gagnrýna ekki hvort annað á alþjóðavettvangi vegna málsins, og Suður-Kóreumenn ætla að íhuga að fjarlægja styttu sem reist var fyrir utan sendiráð Japans í Seúl fyrir fjórum árum, og táknar konurnar.