Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, ætlar ekki að bjóða sig fram til embættisins í sjötta sinn. Þetta tilkynnti hann í nýársávarpi sínu rétt í þessu.
Ólafur Ragnar sagði að óvissan sem var fyrir hendi fyrir fjórum árum, og leiddi til áskorana um að hann yrði áfram forseti, móti ekki lengur stöðu Íslendinga. Búið væri að leggja til hliðar aðild að ESB, uppgjör föllnu bankanna og afnám hafta væri senn í höfn og deilur um stjórnarskrána hefðu vikið fyrir sátt.
„Nú er góður tími fyrir þjóðina að ganga með nýjum hætti til ákvörðunar um forseta; sess Íslands og innviðir þjóðlífsins eru traustari en um langan tíma. Þótt annar muni halda um forsetastýrið verð ég áfram reiðubúinn að sinna verkum á þjóðarskútu okkar Íslendinga; er á engan hátt að hverfa frá borði; verð ætíð fús að leggjast með öðrum á árar,“ sagði forsetinn meðal annars. Hann sagði þjónustu við þjóðina vera æðstu skyldu forsetans, og sú skylda vari lengur en ábyrgðin sem formlega felist í embættinu.
Hann sagðist ætla að sinna Norðurslóðamálum, loftslagsbreytingum og samstarfi við þjóðir heims um aukna nýtingu hreinnar orku.
Þetta þýðir að nýr forseti verður kjörinn í forsetakosningum í júní.
Forsetinn lauk máli sínu með sama hætti og hann gerði í innsetningarávarpi sínu árið 1996. „Ég bið ykkur öll að minnast áa okkar og ættjarðar. Megi blessun guðs og gjöful náttúra færa Íslendingum gæfu um alla framtíð.“