Íbúðalánasjóður og Félagsbústaðir hf. hafa undirritað samkomulag um að Félagsbústaðir kaupi 47 íbúðir af sjóðnum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Félagsbústöðum, en áður hafði RÚV greint frá viðskiptunum. Með þessum kaupum hafa Félagsbústaðir keypt um 85 íbúðir á árinu 2015.
Íbúðirnar, sem eru flestar tveggja eða þriggja herbergja, eru staðsettar víðsvegar í Reykjavík og eru flestar þeirra í útleigu. Afhending eignanna fór fram þann 31. desember síðastliðinn og yfirtaka Félagsbústaðir þá leigusamninga sem í gildi eru við íbúa. Breytt eignarhald íbúðanna verður kynnt íbúum þeirra bréflega á næstunni, segir í tilkynningu.
Félagsbústaðir eru hlutafélag í eigu Reykjavíkurborgar sem hefur það markmið að stuðla að framboði á félagslegu leiguhúsnæði í borginni til þess að mæta húsnæðisþörf íbúa Reykjavíkur sem ekki hafa tök á að kaupa eða leigja íbúðir á almennum markaði.
Íbúðalánasjóður hefur lagt áherslu á að selja sem mest af eignum sjóðsins á þessu ári og fækka þannig fullnustueignum í eigu sjóðsins eins og kostur er, en sjóðurinn er fyrst og fremst lánveitandi á fasteignamarkaði.
„Lögð er áhersla á að selja eignir sjóðsins í opnum söluferlum. Þannig eru nú um 700 eignir til sölu hjá fasteignasölum um land allt, um 500 eignir til viðbótar voru boðnar til sölu í desember í opnu söluferli og í október sl. bauð Íbúðalánasjóður sveitarfélögum til viðræðna um kaup á eignum í eigu sjóðsins. Sveitarfélög hafa mörg tekið vel í erindi Íbúðalánasjóðs og salan nú á 47 eignum til Félagsbústaða kom til í framhaldi af þessum viðræðum,“ segir í tilkynningu frá Félagsbústöðum.