Miðstjórn ASÍ krefst þess að stjórnvöld leggi hátekjuskatta á „ofurlaun" og gagnrýnir kjararáð harðlega vegna ákvarðana um hækkun á launum dómara. Þetta kemur fram í tilkynningu frá ASÍ.
Eins og fram hefur komið ákvað kjararáð í desember að dómarar ættu að fá 40% launahækkun og einnig verulega hækkun á launum bankastjóra Landsbankans. Eru þessar hækkanir „úr öllum takti við þann veruleika sem þorri launafólks býr við,” að mati Miðstjórnar ASÍ.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra sagðist í viðtali á Bylgjunni í morgun ætla að krefja kjararáð skýringa á þessum hækkunum.
Miðstjórn ASÍ varar einnig við því að með hækkununum sé verið að leggja grunn að frekari launahækkunum æðstu embættismanna ríkisins, eins og forseta, ráðherra og alþingismanna.
Í nóvember hækkaði kjararáð einnig laun forseta Íslands, ráðherra, alþingismanna, dómara og forstöðumanna ríkisstofnana um 9,3 prósent, afturvirkt frá 1. mars.