Forsvarsmenn Netflix tilkynntu í dag að opnað hafi verið fyrir þjónustuna í 130 löndum til viðbótar við það sem var og er Ísland á meðal þeirra.
Samkvæmt vefsíðu Netflix munu áskriftarleiðirnar kosta frá átta evrum mánarlega til tólf evra, eftir því hvaða þjónustuleið er valin. Þetta gera á bilinu 1.000 til 1.700 íslenskar krónur.
Netflix hefur verið beðið hér með nokkurri eftirvæntingu, en í febrúar síðastliðnum samdi Samfilm við Netflix um þjónustu hér á landi og var þá tilkynnt að opnað yrði fyrir streymið hingað síðsumars það sama ár. Ekkert varð þó af því.
En Íslendingar hafa ekki látið ógreinileg landamæri stöðvað sig hingað til eftir þjónustu Netflix. Hæglega hefur verið hægt að að kaupa áskrift með ákveðnum krókaleiðum og í október í fyrra voru 18,4 prósent íslenskra heimila áskrifendur að Netflix, þrátt fyrir að þjónustan hafi ekki formlega verið í boði hér á landi.
Netflix er streymiþjónusta þar sem hægt er að nálgast mikið magn kvikmynda, sjónvarpsþátta, barnaefnis, heimildarmynda og annars áhorfanlegs efnis.