„Við eigum ekki að taka þátt í svona aðgerðum blindandi, en það kallar á að við endurmetum það hvernig við nálgumst þennan EES-samning,“ segir Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra um viðskiptaþvinganir gagnvart Rússlandi. Hann var í viðtali á Bylgjunni í morgun. „Ég held að við eigum í auknum mæli að fara að leggja okkar eigið mat á hlutina,“ sagði hann jafnframt.
Sigmundur Davíð sagði Ísland í rauninni bara taka þátt í refsiaðgerðum að nafninu til. „Ég held að menn hafi ekki gert ráð fyrir að viðbrögð Rússlands myndu bitna alveg sérstaklega illa á því landi sem í raun lagði minnst til aðgerðanna. Það er að mínu mati mjög ósanngjarnt og ástæða fyrir því að við erum að reyna hvað við getum, í ráðuneytunum, með útflytjendum að bæta úr þessu.“ Hann sagði að gagnaðgerðir Rússa bitni alveg sérstaklega illa á Íslendingum.
Mikil óeining innan ríkisstjórnarinnar
Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra hefur staðið fast á þeirri skoðun að viðskiptaþvinganir gegn Rússum verði ekki endurskoðaðar og að þeim verði framhaldið á meðan Evrópusambandið beitir einnig viðskiptaþvingunum. Núverandi þvinganir renna út í þessum mánuði en Gunnar Bragi hefur sagt að hann sjái ekki ástæðu til þess að breyta afstöðu Íslands.
Á Þorláksmessu var greint frá því í Fréttablaðinu að bæði Sigmundur Davíð og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra vildu fara sér hægt í yfirlýsingum um framhaldið, og að ráðherrar í ríkisstjórninni séu ósáttir við yfirlýsingar Gunnars Braga vegna þess að engin formleg ákvörðun hefði verið tekin um framhaldið.
Þá hafa Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi mjög látið í sér heyra vegna málsins undanfarið, og allir forystumenn samtakanna tjáð sig um málið opinberlega. Gunnar Bragi hefur sagt að hann hafi aldrei fundið eins mikinn þrýsting og í viðskiptaþvinganamálinu.
Sigurður Ingi Jóhannsson sjávarútvegsráðherra sagði í gær við RÚV að hann vildi bíða með ákvörðun um framhald viðskiptaþvingana þangað til skýrsla um afleiðingar aðgerðanna verður tilbúin. Það væri eðlilegt að skoða afleiðingarnar áður en ákvörðun væri tekin.
Utanríkisráðherrann ítrekaði í gær við RÚV að þátttaka Ísland í þvingunum byggi á því að alþjóðalög og samningar sem hafi verið brotnir í innrás Rússa á Krímskaga. „Við byggjum okkar fullveldi og landamæri á því að réttindi séu virt og alþjóðasamningar. Og þá spyr maður sig, hvernig verðleggjum við slíkt? Hvernig verðleggjum við fullveldi, ef við byggjum okkar efnahag meðal annars á samningi um veiðar og að landhelgin sé virt? Er það fimm milljarða virði, tólf eða fimmtán? Ég velti fyrir mér hvernig setjum við verðmiða á það? Ég þekki engan stjórnmálamann, og fáa Íslendinga sem eru tilbúnir til að verðleggja slíkt,“ sagði hann við RÚV.