Bann við vopnasölu og viðskiptaþvinganir gegn Rússlandi vegna Úkraínu eru tvö aðskilin mál og ákvörðun Bandaríkjamanna um að gera undanþágu á vopnasölubanninu gagnvart Rússlandi tengist ekki viðskiptaþvingunum vegna Úkraínu. Þetta segir talsmaður bandaríska sendiráðsins á Íslandi við Kjarnann. Sendiherra Bandaríkjanna hér á landi segir að Bandaríkin sýni því skilning að refsiaðgerðir hafi haft áhrif á íslenskan sjávarútveg, en það sé mikilvægt að bandamenn í NATO haldi áfram að „standa vörð um nauðsynlegar grundvallarreglur“.
Í Morgunblaðinu á mánudaginn var rætt við Jens Garðar Helgason, formann Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi, þar sem hann sagði að stórveldi á borð við Þýskaland og Bandaríkin hefðu gert tilslakanir á viðskiptaþvingunum gagnvart Rússum til að liðka fyrir eigin viðskiptum, og hagi sér eftir því sem henti þeim fjárhagslega og viðskiptalega, á sama tíma og Íslendingar sætu við sinn keip. Hann sagði að áhrifin af innflutningsbanni Rússa á Íslandi væru grátleg í ljósi þess að Bandaríkjamenn hefðu gefið undanþágu frá vopnasölubanninu svo hægt væri að kaupa varahluti í rússneskar herþyrlur í Afganistan. Þetta segir bandaríska sendiráðið á Íslandi að sé tekið úr samhengi.
Robert Barber, sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, birtir einnig í dag svar við grein Jens Garðars á Facebook-síðu sendiráðsins. Þar kemur fram að vonast hafi verið til þess að greinin yrði birt í Morgunblaðinu í dag, en svo hafi ekki verið.
„Varðandi það sem kemur fram í greininni um að Bandaríkin hafi sótt um undanþágur fyrir rússneska varahluti í þyrlur langar mig að taka fram að í nóvember 2015 leyfðum við sendingu á slíkum varahlutum sem afganski herinn þarfnaðist fyrir Mi-17 þyrlur sínar. Þessir varahlutir féllu undir refsiaðgerðir er snúa að takmörkun á útbreiðslu gereyðingarvopna, sem settar voru á samkvæmt bandarískum lögum um slíkar takmarkanir að því er varðar Íran, Norður-Kóreu og Sýrland. Þessir varahlutir falla ekki undir refsiaðgerðir vegna Úkraínudeilunnar. Þessi aðgerð hafði þann takmarkaða og ákveðna tilgang að aðstoða öryggissveitir Afgana í baráttu sinni gegn hryðjuverkum,“ skrifar Barber meðal annars.
Bandaríkin, líkt og Ísland og aðrar þjóðir hafi fundið fyrir afleiðingum refsiaðgerðanna og gagnaðgerðum Rússa. Útflutningur frá Bandaríkjunum til Rússlands hafi minnkað stórlega milli áranna 2014 til 2015. Í upplýsingum frá bandaríska sendiráðinu, sem Kjarninn hefur undir höndum, kemur fram að milli áranna 2013 og 2014 hafi viðskipti milli ríkjanna dregist saman um 9,9% og sú þróun hafi haldið áfram árið 2015. Rússneskir viðmælendur hafi hins vegar reynt að valda klofningi meðal þeirra mörgu ríkja sem hafi gripið til refsiaðgerða gegn Rússlandi vegna Úkraínu, meðal annars með því að halda því fram að viðskipti á milli Bandaríkjanna og Rússlands hafi aukist árið 2014.
Mikil umræða og þrýstingur
Mikil umræða hefur verið undanfarna daga um þátttöku Íslands í viðskiptaþvingunum gegn Rússlandi vegna aðgerða Rússa í Úkraínu árið 2014, og innflutningsbannið sem Rússar gripu til í kjölfarið. Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra sagði skömmu fyrir jól að Ísland myndi áfram taka þátt í viðskiptaþvingunum með öðrum Evrópuríkjum og Bandaríkjunum. Afstaða Íslands hefði ekki breyst.
Samtök fyrirtækja í sjávarútvegi hafa verið mjög gagnrýnin á þessa afstöðu og vilja að þátttöku í viðskiptaþvingununum verði hætt vegna áhrifa innflutningsbannsins á íslenskan sjávarútveg. Síðast í gær kom fram í kvöldfréttum RÚV að samkvæmt skýrslu um áhrif bannsins á þjóðarbúið tapist sex til tólf milljarðar árlega vegna þess. Það þýði um eitt prósent landsframleiðslu sem sé í hættu.
„Ef þetta snýst um prinsipp, fullveldi þjóða og svo framvegis, að þá eru mikil viðskipti í gangi nú þegar hjá þessum stórþjóðum Evrópu og Bandaríkjunum við Rússa. Og maður veltir fyrir sér prinsippunum þar,“ sagði Haukur Þór Hauksson, aðstoðarframkvæmdastjóri SFS, við RÚV í gær.
Á mánudaginn kemur út skýrslan um áhrif viðskiptaþvingana á íslenska þjóðarbúið. Í samtali við RÚV í gærkvöldi sagði Hallveig Ólafsdóttir, hagfræðingur SFS, að „aðrar bandalagsþjóðir eru ennþá í miklum viðskiptum við Rússland.“