Páll Matthíasson, forstóri Landspítalans, segir að „gríðarlegur innlagnarþungi sé á spítalanum“ en unnið sé eftir stefnu og starfsáætlun sem miði að því að halda þjónustustiginu eins háu og kostur er og nýta fjármuni sem best.
Þetta kemur fram í pistli Páls, á vefsíðu Landspítalans, þar sem fjallað er um stefnu og starfsáætlun á árinu 2016. „Allt sem við gerum lýtur að því að efla öryggi sjúklingsins og bæta við hann þjónustuna. Af sömu ástæðu leggjum við áherslu á mannauð, menntun og vísindastarf sem og hagkvæman rekstur þar sem við leitumst alltaf við að lágmarka sóun. Tilgangur stefnu og starfsáætlunar er að setja þessi markmið okkar skýrt fram og vera vegvísir í daglegum störfum. Skilaboðin eru þau að sjúklingurinn er ávallt í öndvegi. Þessi vinna verður kynnt nánar á næstu vikum og mánuðum og ég vil biðja ykkur að fylgjast vel með því,“ segir í pistlinum.
Páll segir að mikið álag hafi verið á spítalanum í upphafi árs, en nánst hafi keyrt um þverbaka síðustu daga. „Óhætt er að segja að nýja árið fari af stað með trukki og dýfu. Jafnvel þó að við séum ýmsu vön í upphafi árs og gerum ráð fyrir miklum önnum þá hefur nánast keyrt um þverbak síðustu daga. Gríðarlegur innlagnaþungi er á spítalanum en eins og oft áður hafa útskriftir gengið hægar en æskilegt væri. Samt hafa allir lagst á eitt og við fengið aðstoð sjúkrahúsa og stofnana um land allt til að bregðast við þessari þungu stöðu.“