MS seldi á síðasta ári rúmlega 1,6 milljón stykki af 250 millilítra G-mjólkurfernum með röri. Um er að ræða bæði venjulega G-mjólk og létta.
Ólíkt flestum öðrum mjólkurafurðum sem seldar eru í litlum umbúðum, kemur G-mjólkin með röri á hliðinni eins og hún sé ætluð til drykkjar, eins og ávaxtasafi eða Kókómjólk. En langflestir nota mjólkina hins vegar út í kaffi.
Jón Axel Pétursson, framkvæmdastjóri sölu- og markaðssviðs MS, segir pökkunarvél G-mjólkurinnar afar óhentuga fyrir vöruna.
„Þetta er alveg skelfileg vél til að nota í þessa vöru. Það er ömurlegt fyrir okkar neytendur að hún sé að framleiða þetta svona,” segir hann. „En það hefur ekki verið fjárhagslegur grundvöllur fyrir því að kaupa nýja bara í þessa framleiðslu, þar sem kostnaður við svona pökkunarvélar hleypur á hundruðum milljóna. Ódýrasta vélin kostar um 100 milljónir.”
Að sögn Jóns Axels er það sem flækir málið enn frekar varðandi endurnýjun á pökkunarvél er að G-mjólk er með mun lengra geymsluþol en aðrar mjólkurvörur, eða sex mánuði. Hún er háhitameðhöndluð sem gerir allan búnað tengda henni dýrari.
„Það er til fersk mjólk í 250 millilítra fernum með tappa, sem er líka hægt að nota í kaffi,” segir Jón Axel. „En flestir kjósa þessa því hún þarf ekki að geymast í kæliskáp.”
Sumir kannast við að rekast á ferðamenn á förnum vegi með G-mjólkurfernu í hönd sem þau drekka af bestu lyst úr rörinu sem fylgir með. Jón Axel segir það vissulega tíðkast víða erlendis að G-mjólk sé drukkin, en hér á landi er hún nær einvörðungu notuð í kaffi. Og rörið oftar en ekki notað til að sprauta mjólkinni í bollann, með misjöfnum afleiðingum. Þá getur líka reynst snúið að opna fernuna svo vel fari.
„Það er vesen sem allir kannast við,” segir Jón Axel.
Kaffirjóminn frá MS sem og rjóminn í 250 millilítra umbúðum koma ekki í fernum með rörum. Jón Axel segir þetta vissulega vert skoðunar.
„Við höfum bara aldrei fengið svona ábendingu áður,” segir hann. „Og munum taka hana til greina.”