Yfir 2.400 manns yfirgáfu þjóðkirkjuna á síðustu þremur mánuðum ársins 2015.
Þjóðskrá birti í dag tölur um breytingar á skráningum einstaklinga í trúfélög á tímabilinu 1. október til 31. desember 2015.
Vegna vinsældar nýja trúfélagsins Zúista tók Þjóðskrá sérstaklega saman tölur vegna skráninga í það.
Zúistar komu fram á sjónarsviðið seinni hluta síðasta árs með það höfuðmarkmið að hið opinbera felli úr gildi öll lög sem veita trú- og líffskoðunarfélögum forréttindi eða fjárstyrki umfram önnur félög. Þá endurgreiðir félagið öllum skráðum meðlimum árlegan styrk sem það fær frá ríkinu.
Alls gengu 3.176 einstaklingar í félagið á þessu þriggja mánaða tímabili, þar af komu 1.056 úr þjóðkirkjunni og 1.652 sem voru áður utan trúfélaga.
Fækkað hefur jafnt og þétt í þjóðkirkjunni undanfarin ár. Á fyrstu sex mánuðum ársins 2015 gengu 1.357 fleiri úr henni en í hana. Alls skráðu 1.706 einstaklingar sig úr Þjóðkirkjunni en 309 í hana.