Meðlimir í Anonymous gerðu árás á vefsíður stjórnarráðsins í dag og tókst að loka heimasíðum allra ráðuneyta um stund. Enn eru truflanir á síðunum. Forsætisráðuneytið hefur staðfest við Kjarnann að árás var gerð og á Twitter kemur fram að árásin var hluti af svokallaði #OpWhales herferð, sem meðlimir í Anonymous standa á bak við. Herferðin gengur út á að mótmæla hvalveiðum Íslendinga.
Árásin er samskonar og tvær tölvuárásir sem gerðar voru í nóvember. Í annarri þeirra var vefsíðum fimm ráðuneyta lokað og í hinni var ráðist á vefsíðu forsætisráðuneytisins, Símans og Morgunblaðsins, meðal annars.
Á Twitter-reikningnum fyrir aðgerðina er í dag mikið fjallað um Ísland og hvalveiðar. Þar má meðal annars sjá mynd af Kristjáni Loftssyni, eiganda Hvals ehf., og hann sagður andlit skammarinnar á Íslandi. Þá eru birtar upplýsingar um fyrirtækið Hval og fólk er hvatt til að senda því línu.
Fyrsta atlagan hjá Anonymous olli miklum töfum á netþjónustu og þjónustuaðilar tilkynntu viðskiptavinum sínum um þær. Á meðal þeirra síðna sem meðlimir tengdir Anonymous hreyktu sér af á Twitter að hafa náð að loka tímabundið fyrir erlendri umferð voru síða forsætisráðuneytisins, Mbl.is, Símans, Menn.is, Iceland.is og Visiticeland.is. Í annað skiptið var aðeins ráðist að fimm vefsíðum stjórnarráðsins. Þá sendu stjórnvöld frá sér yfirlýsingu til að taka fram að engin gögn hafi verið í hættu. Vefirnir voru lokaðir fyrir umferð og heimsóknum þar til ljóst var að ástandið var komið aftur í eðlilegt horf.