Everest var vinsælasta kvikmyndin í kvikmyndahúsum á Íslandi í fyrra, samkvæmt tölum frá félagi rétthafa í sjónvarps- og kvikmyndaiðnaði (FRÍSK). Rúmlega 67 þúsund manns sáu mynd Baltasars Kormáks í bíó, sem skilaði tekjum upp á tæplega 90 milljónir króna.
Fast á hæla Everest kom nýja Star Wars myndin, en þrátt fyrir að hún hafi ekki verið frumsýnd fyrr en þann 18. desember hafa tæplega 59 þúsund manns séð hana í bíó, og hún hefur skilað tæplega 78 milljónum í tekjur.
Aðeins ein íslensk kvikmynd er á listanum yfir 20 vinsælustu kvikmyndirnar, en það er Hrútar. 21.500 manns sáu hana í bíó í fyrra. Tekjur íslenskra kvikmyna voru mun minni í fyrra en árið þar áður, fóru úr tæpum 197 milljónum króna árið 2014 í tæpar 74 milljónir í fyrra. „Árið 2014 var reyndar einkar gott ár en þá var m.a. kvikmyndin Vonarstræti stærsta mynd ársins,“ segir í tilkynningu frá FRÍSK.
Aðsókn í kvikmyndahús jókst þó aðeins milli ára í fyrsta skipti frá árinu 2009, og það gerðu tekjurnar einnig. Í heildina voru aðsóknartekjur kvikmyndahúsanna rúmlega 1,5 milljarður króna, sem er 4,44% aukning milli ára. Fjöldi þeirra sem fór í bíó á árinu var tæplega 1,4 milljón manns, sem er aukning um 2,8% milli ára.