Eggert Benedikt Guðmundsson hefur verið ráðinn forstjóri ReMake Electric ehf. og tekur hann við starfinu nú þegar. Á undanförnum árum hefur ReMake náð góðum árangri í vöruþróun og er orkustjórnunarkerfið eTactica leiðandi á sínu sviði á heimsvísu. ReMake hefur náð góðum árangri í sölu innanlands.
Framundan er „stóraukin áhersla á sölu- og markaðsstarf á erlendum mörkuðum“ og mun Eggert Benedikt leiða þá markaðssókn, að því er segir í tilkynningu.
„Hjá ReMake hefur verið þróuð einstök og afar öflug lausn fyrir orkustjórnun sem hentar sérstaklega vel fyrir fyrirtæki og fasteignafélög. Verkefnið framundan er að hraða vexti erlendis með því að stækka net samstarfsaðila og auka skilvirkni í sölu og ég er afar ánægður með að fá jafn reyndan og traustan stjórnanda og Eggert Benedikt til að leiða þá vinnu“, segir Þórður Magnússon stjórnarformaður ReMake Electric ehf.
Að sögn Eggerts Benedikts er þetta spennandi verkefni, að því er fram kemur í tilkynningu. „ReMake býður lausnir sem hjálpa fyrirtækjum að draga úr orkunotkun og auka rekstraröryggi. Þetta hjálpar því m.a. til við að draga úr mengun og draga úr losun gróðurhúsalofttegunda. Alls staðar í heiminum er nú leitast við að geta staðið við markmið og skuldbindingar sem gefin voru á Parísaráðstefnunni í lok sl. ár. Við munum leggja megináherslu á uppbyggingu sölustarfsins, því tæknilegar lausnir ReMake eru orðnar vel þróaðar og ReMake hefur alla burði til að verða leiðandi afl í orkustjórnun í heiminum. Hjá ReMake vinnur afburðafólk. Ég er því fullur tilhlökkunar að takast á við þetta verkefni, enda nýtist hér reynsla mín af rafmagnsverkfræði, markaðsmálum og fyrirtækjarekstri.”
Ína Björk Hannesdóttir sem leitt hefur starf ReMake Electric undanfarin misseri starfar áfram sem rekstrarstjóri félagsins.
Eggert Benedikt Guðmundsson lauk meistaraprófi í rafmagnsverkfræði frá háskólanum í Karlsruhe, Þýskalandi árið 1990. Hann vann við rannsóknir og þróun hjá Íslenska járnblendifélaginu hf. næstu fimm árin, en hélt þá til náms við IESE viðskiptaháskólann í Barcelona og lauk þar MBA prófi vorið 1997. Eggert vann við markaðsmál og viðskiptaþróun hjá Philips Electronics frá 1997-2004, fyrst í Belgíu og síðan í Kaliforníu. Árin 2004 til 2012 starfaði hann hjá HB Granda, fyrst sem markaðsstjóri, en sem forstjóri frá febrúar 2005. Frá HB Granda lá leiðin til N1, þar sem Eggert var forstjóri frá 2012-2015.
Á bak við ReMake Electric standa styrkir bakhjarlar. Auk stofnandans Hilmis Inga Jónssonar eru helstu eigendur félagsins Eyrir Sprotar slhf. og Nýsköpunarsjóður Atvinnulífsins. Aðaláherslur í frekari uppbyggingu ReMake Electric eru á sölu- og markaðsstarf félagsins, segir í tilkynningu.
ReMake Electric gerir fyrirtækjum kleift að skilja og bæta orkunotkun sína. eTactica lausnin mælir, vaktar og skráir rafmagnsnotkun niður á hverja grein í rauntíma og krefst einungis lágmarks viðbótar uppsetningar á búnaði. Lausnin gerir viðskiptavinum kleift að bæta orkunýtingu og auka rekstraröryggi ásamt því að mæta sjálfbærnikröfum og lækka kostnað. ReMake Electric var stofnað árið 2009. Höfuðstöðvar ReMake eru á Íslandi.