Jón Gnarr, dagskrárstjóri 365 og fyrrverandi borgarstjóri, ætlar að tilkynna á föstudaginn næstkomandi hvort hann ætli að bjóða sig fram til forseta Íslands í næstu forsetakosningum.
„Ég ætla bara að liggja undir feldi þangað til," segir Jón í samtali við Kjarnann.
Aðspurður hvort hann ætli að tilkynna málið í einum af miðlum 365 svarar hann því játandi. Það verður þá væntanlega í föstudagsblaði Fréttablaðsins, á Bylgjunni, X-inu, FM957, Vísi.is eða Stöð 2.
Jón sagði í Jólavöku RÚV, 20. desember síðastliðinn, að honum þætti verkefnið spennandi og hann „væri alveg til í að vera forseti." Margir hafi rætt um það við hann, en hann væri þó ekki alveg viss hvort hann væri tilbúinn í það á þessum tímapunkti.
Í mars síðastliðnum skrifaði Jón pistil í Fréttablaðið þar sem hann sagðist hins vegar ekki ætla að bjóða sig fram til forseta. Þá hafði könnun sem blaðið birti nokkrum mánuðum áður sýnt að 47 prósent aðspurðra vildu Jón í embættið. Í pistlinum sagðist Jóni óa við þeirri tilhugsun að verða hluti af þeim „ömurlega og hallærislega kúltúr" sem íslensk stjórnmálamenning sé. Hann sagðist þá ekki ætla að gera fjölskyldunni sinni það að „standa aftur andspænis freka kallinum", sem hafi tileinkað sér tilætlunarsemi, frekju og dónaskap í daglegum samskiptum.
"Ég hef því tekið þá ákvörðun að ég mun ekki bjóða mig fram til forseta Íslands í þetta skiptið. Kannski einhvern tíma seinna," sagði Jón í grein sinni fyrir tæpu ári.
Nú hefur hann nýlokið við að skrifa 10 þátta sjónvarpsseríu, Borgarstjórann, sem er að fara í framleiðslu á næstunni hvar hann leikur titilhlutverkið. Í stöðufærslu sem hann skrifaði á Facebook í síðustu viku fram kom meðal annars að hann sé líka að skoða möguleika á því að gera sérstakan jóla- og áramótaþætti af Næturvaktinni.
Forsetakosningarnar fara fram 25. júní næstkomandi. Nú þegar hafa nokkrir tilkynnt um framboð: Þorgrímur Þráinsson rithöfundur, Elísabet Jökulsdóttir rithöfundur, Ástþór Magnússon, forsvarsmaður Friðar 2000, Hildur Þórðardóttir þjóðfræðingur, Ari Jósepsson skemmtikraftur og Sturla Jónsson bílstjóri.