Efnahagsleg áhrif af innflutningsbanni Rússa á íslensk matvæli geta orðið umtalsverð, en það verður líka að hafa í huga að samdráttur ríkir í efnahagsmálum Rússlands og kaupmáttur þar fer minnkandi. Þetta kemur fram í niðurstöðum skýrslu um efnahagsleg áhrif innflutningsbanns Rússlands á íslenska hagsmuni, sem fyrirtækið Reykjavik Economics vann að beiðni samráðshóps stjórnvalda og hagsmunasamtaka á Rússlandsmarkaði.
Mjög erfitt er að meta áhrifin af innflutningsbanninu á íslenskt hagkerfi. Draga þarf ýmsar ályktanir um framboð og eftirspurn og fjárhagsleg áhrif á einstök fyrirtæki og geira. En að mati skýrsluhöfunda er hins vegar ljóst að áhrifin á einstaka byggðarlög eru alvarleg og að heildaráhrifin eru talsverð, sérstaklega ef ástandið verður viðvarandi til langrar framtíðar.
Samkvæmt útreikningum skýrsluhöfunda gætu áhrifin af innflutningsbanninu numið frá tveimur og til rúmlega átján milljörðum króna, allt eftir mismunandi sviðsmyndum, en þær líta til næsta árs, næstu þriggja ára og næstu tíu ára. Í þessum ólíku sviðsmyndum er einnig litið til þess hvort vöxtur yrði á innflutningi og hversu hátt hlutfall tapast.
Þar kemur líka fram að Ísland, sem lítið og opið hagkerfi sem treysti mikið á utanríkisviðskipti, verði fyrir neikvæðari áhrifum af innflutningsbanni Rússa en flest önnur ríki, vegna þess að útflutningur sjávarútvegsafurða hafi svo mikil áhrif á íslenskt hagkerfi og vegna hlutfallslegs mikilvægis Rússlands sem markaðar fyrir þessar sömu afurðir. Ef Rússar hefðu sett innflutningsbann á einhverjar aðrar vörur hefði Ísland ekki komið eins illa út.
Rússland hafi verið vaxandi markaður fyrir íslenskar vörur lengi og frá því að krónan hrundi árið 2008 og með auknum makrílveiðum hafi vöxturinn verið umtalsverður. Makríll er verðmætasta sjávarafurðin sem seld var til Rússlands árið 2014, 38% alls verðmætisins, á meðan síld er 31% og loðna 16%.
Koma makríls inn í íslenska lögsögu er ein stærsta ástæða þess að útflutningur til Rússlands hefur aukist mikið á undanförnum árum. Makríll var nánast ekkert veiddur hér fram til ársins 2007 en árið 2014 voru á bilinu 171 þúsund til 174 þúsund tonn veidd.
Efnahagsástandið hefði kostað viðskipti hvort sem er
Samdrátturinn í efnahagsmálum Rússlands nam 3,8% á síðasta ári og talið er að samdrátturinn nemi 0,6% á þessu ári. Kaupmáttur þar í landi hefur því minnkað og eftirspurn sömuleiðis. Það er þó óljóst að hversu miklu leyti þetta hefði áhrif á íslenskar fiskvörur, sem séu ódýrt prótein, segir í skýrslunni.
Rússar séu hins vegar að gefa innlendum framleiðendum tækifæri með innflutningsbanninu. Innlendir framleiðendur hafi þannig tækifæri nú til þess að bæta sínar vörur og auka markaðshlutdeild. Þá hafa rússneskar vörur orðið ódýrari en innfluttar vegna falls rúblunnar.
Einnig er tekið fram í skýrslunni að með styrkingu krónunnar gagnvart dollar og evru hafi Ísland ekki eins sterka samkeppnisstöðu og áður, auk þess sem ekki sé hægt að útiloka að gengislækkun rúblunnar gagnvart krónunni hefði haft neikvæð áhrif á viðskipti milli ríkjanna hvort sem að gripið hefði verið til viðskiptaþvingana eða innflutningsbanns.
Í skýrslunni kemur líka fram að það sé of snemmt að segja til um það hvaða áhrif mótvægisaðgerðir stjórnvalda hér á landi muni hafa.
Utanríkisráðuneytið segir það meiriháttar frávik ef samstaða væri rofin
Utanríkisráðuneytið hefur einnig tekið saman mat á hagsmunum Íslands í málinu. Meðal þess sem þar kemur fram er að óvissa ríki um áhrif innflutningsbannsins en það sé full ástæða til að ætla til lengri tíma að sjávarútvegsfyrirtæki finni nýja markaði fyrir vörur sínar. „Er margt sem bendir til þess að fyrirtækin hafi nú þegar náð að aðlaga sig að þeim breyttu aðstæðum.“ Íslensk stjórnvöld hafi líka fljótt gripið til mótvægisaðgerða til að milda áhrifin.
Þá kemur einnig fram í hagsmunamatinu að Ísland hafi sýnt samstöðu með ríkjum sem standi gegn alvarlegum brotum á alþjóðalögum og sáttmálum. Samvinna og samleið með vestrænum lýðræðisríkjum hafi verið leiðarljós íslenskrar utanríkisstefnu í áratugi og það hafi ítrekað sýnt sig að hagsmunum Íslands sé best borgið í hópi og samstöðu þessara ríkja. „Að rjúfa samstöðu vestrænna ríkja teldist meiriháttar frávik frá utanríkisstefnunni og ábyrgðarhluti sem kallaði, í besta falli, á gagnrýnar spurningar vinaþjóða um vegferð íslenskra stjórnvalda í alþjóðasamskiptum og orðspor Íslands sem traust bandalagsríki myndi bíða hnekki. Hagsmunagæsla við okkar helstu vina- og bandalagsþjóðir yrði þyngri í vöfum.“