Netrisarnir Amazon, Netflix, Facebook og Alphabet (Google) hafa öll lækkað meira heldur en samræmd vísitala markaðarins í Bandaríkjunum, S&P 500, það sem af er ári. Þessi félög hækkuðu mestra allra félaga í fyrra, og virtust fjárfestar treysta á að þau myndu vaxa hratt og skila góðri ávöxtun.
Byrjun þessa árs hefur verið erfið fyrir hlutabréfamarkaði um nær allan heim, og sé dagurinn í dag meðtalinn þá hefur um 5 prósent af öllu verði skráðra félaga í heiminum horfið það sem af er ári, miðað við stöðuna eins og hún var í lok árs í fyrra.
Mesta lækkunin á árinu á Bandaríkjamarkaði, stærsta skráða hlutabréfamarkaði í heiminum, er hjá Amazon, eða um fimmtán prósent. Netflix hefur lækkað um 9,7 prónsent, Facebook um 9,2 prósent og Alphabet, oftast þekkt undir nafni Google, um 8,9 prósent, samkvæmt umfjöllun Wall Street Journal.