Brottflutningur frá landinu er að aukast á sama tíma og aðflutningur dregst saman. Þetta er óvenjulegt í ljósi þess að almennt atvinnuleysi fer minnkandi og hagvöxtur eykst. Fjöldi þeirra sem eru með háskólamenntun og eru án vinnu hefur þó aukist um 275 prósent á síðustu 10 árum, á meðan VR sendi frá sér skýrslu í morgun þar sem rýnt er í tölur um nettó aðflutning hingað til lands og sjónunum beint að því sem er kallað falið atvinnuleysi.
Þegar sagan er skoðuð sést að fólk hefur flutt frá landinu í meira mæli þegar illa árar í efnahagslífinu. Þó hefur munurinn á aðfluttum og brottfluttum aldrei verið meiri á tímum í íslensku efnahagslífi sem ekki teljast til kreppuára, en nú.
„Mikið magn fjármagns hefur flætt inn í íslenskt hagkerfi seinustu mánuði en því getur fylgt ofhitnun hagkerfisins. Velta á fasteignamarkaði hefur aukist mikið seinustu árin og nálgast, að raunvirði, veltuna 2004. Skuldir heimilanna eru ekki að vaxa og því líkur á að stór hluti nýrra útlána bankakerfisins fari í uppgreiðslur lána Íbúðalánasjóðs,” segir í skýrslu VR.
Fram kemur í skýrslunni að engar haldbærar skýringar hafi komið fram fyrir þessari þróun en hugmyndir eru um hvort ástæðan sé meðal annars einhæf fjölgun starfa undanfarin ár. Þá er bent á að ferðaþjónustan hafi vaxið mikið á þessu tímabili en það sé atvinnugrein sem hafi litla þörf fyrir vinnuafl með iðn-, tækni- eða háskólamenntun.
Þetta endurspeglast í tölum Vinnumálastofnunar um menntun atvinnulausra, en á fyrstu 11 mánuðum ársins 2005 var fjöldi atvinnulausra með háskólamenntun 10,6 prósent af heildarfjölda atvinnulausra. Á sama tíma 2015 var hlutfallið 25,2 prósent. Fjöldi atvinnulausra með háskólamenntun jókst um 272 prósent á tímabilinu, en aðeins 9 prósent hjá þeim sem hafa lokið grunnskólanámi eða öðru sambærilegu. Fyrir þá sem lokið hafa iðnnámi hefur fjöldinn aukist um 84 prósent á sama tímabili.
„Ef lítið framboð verður af verðmætum störfum á Íslandi á næstu árum er það mikið áhyggjuefni og gæti stuðlað að frekari brottflutningi þrátt fyrir gott ástand í efnahagslífinu,” segir í skýrslu VR.
Í tölum sem ASÍ sendi frá sér í síðustu viku, og Kjarninn greindi frá, kemur fram að brottfluttir íslenskir ríkisborgarar hafi verið 0,29 prósent umfram aðflutta sem hlutfall af mannfjölda frá byrjun árs 2014 og út septembermánuð 2015. Það er ekki ósvipað hlutfall og brottflutningur var á fyrri tímabilum þar sem margir fluttu af landi brott. Stjórnvöld hafa sett fram gagnýni á þessa framsetningu og sagt að það virðist sem svo að afmarkaður en hávær hópur fólks eigi erfitt með að sætta sig við að hlutfall brottfluttra Íslendingar sé í raun lágt, séu tölur Hagstofunnar skoðaðar.
Í greiningu ASÍ kom einnig fram að ein möguleg skýring á landflóttanum væru aðstæður á vinnumarkaði, það er að það vanti störf fyrir vel menntað fólk.
Í skýrslu VR er kafli sem ber heitið Falið atvinnuleysi, þar sem fjallað er um að tölur Hagstofunnar um atvinnuleysi segi ekki alltaf alla söguna um hver staðan raunverulega er. Þeir sem eru í hlutastarfi en vilja vinna fullt starf teljast til að mynda ekki atvinnulausir, þó að þeir séu ekki að vinna eins mikið og þeir vilja. Einnig er fólk sem er utan vinnumarkaðar en getur ekki hafið störf innan tveggja vikna auk þeirra sem eru ekki að leita en eru tilbúnir að vinna ef starf stendur þeim til boða. Einstaklingar í síðarnefndu tveimur hópunum teljast ekki atvinnulausir en þá má flokka sem mögulegt vinnuafl þrátt fyrir að vera ekki tekið með sem vinnuafl í formlegu skilgreiningunni, segir í skýrslunni.