Jón Gnarr, dagskrárstjóri 365 og fyrrverandi borgarstjóri, verður með nýjan þátt á Stöð 2 í kvöld sem ber heitið Iceland Today. Þátturinn verður sýndur á sama tíma og Ísland í dag, sem fellur niður í staðinn.
Jón hefur ekki viljað svara því undanfarna daga hvort hann ætli sér að bjóða sig fram til forseta í næstu kosningum, en sagt að hann muni tilkynna það í dag.
Í aðdraganda síðustu sveitastjórnarkosninga bjó Jón til það viðtalsþátt sem hann kallaði Ísland Today. Þar ræddi hann á heldur sérstakan máta við helstu frambjóðendur Bjartrar framtíðar, þess framboðs sem hluti fyrrum meðlima Besta flokksins gekk til liðs við eftir að Jón lagði Besta flokkinn niður. Í prúfuþættinum ræddi Jón við Björn Blöndal, fyrrum aðstoðarmann sinn og oddvita Bjartrar framtíðar.
Jón segir í stöðuuppfærslu á Facebook að „ýmislegt áhugavert" muni koma í ljós í þættinum í kvöld og vísar hann væntanlega til forsetaframboðstilkynningar.
Jón sagði í Jólavöku RÚV, 20. desember síðastliðinn, að honum þætti verkefnið spennandi og hann „væri alveg til í að vera forseti." Margir hafi rætt um það við hann, en hann væri þó ekki alveg viss hvort hann væri tilbúinn í það á þessum tímapunkti.
Í mars síðastliðnum skrifaði Jón pistil í Fréttablaðið þar sem hann sagðist hins vegar ekki ætla að bjóða sig fram til forseta. Þá hafði könnun sem blaðið birti nokkrum mánuðum áður sýnt að 47 prósent aðspurðra vildu Jón í embættið. Í pistlinum sagðist Jóni óa við þeirri tilhugsun að verða hluti af þeim „ömurlega og hallærislega kúltúr" sem íslensk stjórnmálamenning sé. Hann sagðist þá ekki ætla að gera fjölskyldunni sinni það að „standa aftur andspænis freka kallinum", sem hafi tileinkað sér tilætlunarsemi, frekju og dónaskap í daglegum samskiptum.