Íslensk stjórnvöld hafa gert stefnu Alþýðusambands Íslands að sinni eigin stefnu í húsnæðismálum, segir Þorsteinn Víglundsson framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins í umsögn samtakanna um frumvarp um almennar íbúðir. Auk þess hefur félags- og húsnæðismálaráðuneytið haft athugasemdir SA um frumvarpið að engu.
Frumvarp um almennar íbúðir er eitt fjögurra húsnæðismálafrumvarpa sem Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, hefur lagt fram á Alþingi í vetur. Frumvarpið er hluti af loforðum ríkisstjórnarinnar til að greiða fyrir gerð kjarasamninga í fyrra. Frumvarpinu er ætlað að leggja grunn að nýju félagslegu leiguíbúðakerfi, sem á að fjármagnast með stofnframlögum ríkis og sveitarfélaga, eða með beinum vaxtaniðurgreiðslum. Eygló hefur sagt að stuðningur við frumvarpið sé tryggt, en stefnt er að því að afgreiðslu þess verði lokið á Alþingi um mánaðamótin.
Vilja íbúðirnar ekki eins almennar
Samtök atvinnulífsins setja fram ýmsar athugasemdir við frumvarpið, og telja ekki heppilegt að hið opinbera beiti miklum inngripum á húsnæðismarkaði frekar en öðrum mörkuðum. Samtökin segja íslensk stjórnvöld hafa ítrekað komið á fyrirkomulagi sem hafi verið ætlað að búa efnalitlu fólki öryggi í húsnæðismálum, í samvinnu við sveitarfélög og aðila vinnumarkaðarins. „Oftar en ekki hefur þurft að breyta ríkjandi fyrirkomulagi, m.a. til að bregðast við mikilli eftirspurn eftir niðurgreiddu húsnæði og vaxandi kostnaði hins opinbera því samfara.“ Það þurfi að vanda til undirbúnings á nýju fyrirkomulagi eigi það að verða langlífarara en þau kerfi sem hingað til hafa verið sett á laggirnar.
SA segir að fyrirkomulagið um stofnstyrki sé flókið, í stað þess að mótaður sé almennur rammi um þau skilyrði sem hið opinbera telji þurfa svo tryggt sé að lágtekjufólk eigi kost á húsnæði á hóflegum leigukjörum. Þá telja samtökin að aðgangurinn að leiguíbúðum sé alltof rúmur samkvæmt frumvarpinu og með því gæti nálægt 40% þjóðarinnar fengið aðgang að félagslegu húsnæði. „Þessi aðgangur ætti að vera mun takmarkaðri, t.d. bundinn við neðstu 15-20%.“ Þessi aðgangur muni skapa mikla eftirspurn eftir íbúðum, langt umfram það sem í boði verði.
Aðrir jákvæðari gagnvart frumvarpinu
Flestir aðrir umsagnaraðilar eru jákvæðari gagnvart frumvarpinu, þrátt fyrir að flestir hafi einhverjar athugasemdir við það. ASÍ segir í sinni umsögn, rétt eins og SA, að frumvarpið byggi í grundvallaratriðum á stefnu sambandsins, sem hafi verið mörkuð haustið 2012. Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, lýsir yfir eindregnum stuðningi sambandsins við frumvarpið í umsögn ASÍ um það.
Af öðrum aðilum vinnumarkaðarins skilaði BSRB einnig umsögn um frumvarpið, þar sem kemur fram að bandalagið bindi miklar vonir við að framboð leiguhúsnæðis fyrir launafólk aukist verulega verði frumvarpið að lögum. Það sé mikilvægt að tegkjulágar fjölskyldur, sem hingað til hafi ekki átt kost á því, fái aðgang að öruggu leiguhúsnæði á viðráðanlegu leiguverði. Það sé rétt að kveða á um það með skýrum hætti að leiga verði ekki umfram 20-25% af tekjum þessa fólks.
Þingmenn Sjálfstæðisflokks með efasemdir
Þinghópur Sjálfstæðisflokksins hefur margt að athuga við húsnæðisfrumvörp Eyglóar Harðardóttur, félags- og húsnæðismálaráðherra. Þetta segir Ragnheiður Ríkharðsdóttir, þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins við Morgunblaðið í dag. Áður hafði Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, ritari flokksins gagnrýnt frumvörpin í fjölmiðlum og sagt að hún telji að ekki muni allir þingmenn Sjálfstæðisflokksins kjósa með þeim.
Ragnheiður segir að það hafi alltaf verið vitað að stefna Sjálfstæðisflokksins í húsnæðismálum sé séreignarstefna. „Sú stefna að það eigi að gera fólki kleift að eignast sínar eigin íbúðir. Við höfum rætt ýmislegt í þá veru, eins og séreignarsparnað og sérstakan sparnað, og að tekið verði mið með öðrum hætti af leigutekjum, sem fólk hefur greitt í mörg ár, inn í greiðslumatið. Það er ýmislegt þar sem við höfum ekki síður viljað leggja áherslu á, en að fara í þann farveg að beina fólki út á leigumarkaðinn[...]Við höfum margt við þetta að athuga. Við viljum leggjast yfir þetta, en það þýðir ekki að það verði ekki hægt að komast að samkomulagi um að hlutirnir verði afgreiddir með einum eða öðrum hætti."