Freyr Einarsson, fyrrverandi yfirmaður sjónvarps, frétta og íþrótta hjá 365, vinnur nú að því að taka saman gögn tengd Al Thani-málinu fyrir Almenna bókafélagið. Að sögn Freys er ekki búið að ákveða hvort úr verði bók eða skýrsla.
„Ég hef verið að safna saman upplýsingum tengdu þessu máli og það liggur ekkert fyrir ennþá hvað verður úr því,” segir Freyr. „Ég hef bara verið að taka saman gögn og reyndar taka viðtöl við menn sem tengjast málinu. Þetta er á algjöru frumstigi og er algjörlega ómótað. Kannski verður þetta ljósrituð skýrsla í fáeinum eintökum eða bók.”
Aðspurður hvort hann sé að vinna að málinu fyrir þá Kaupþingsmenn sem nú sitja í fangelsi á Kvíabryggju eftir Al-Thani málið, þvertekur Freyr fyrir það. Hann sé að vinna fyrir Almenna bókafélagið.
Hann er búinn að taka viðtal við Ragnar H. Hall, sem var lögmaður Ólafs Ólafssonar, eins stærsta eiganda Kaupþings, en sagði sig frá málinu þar sem hann taldi að réttur Ólafs til réttlátrar málsmeðferðar og jafnræðis við ákæruvaldið við meðferð málsins fyrir dómi hafi ítrekað verið þverbrotinn. Það sama gerði Gestur Jónsson, verjandi Sigurðar Einarssonar, fyrrverandi stjórnarformanns Kaupþings.
Freyr er búinn að vera að skanna dómsskjölin í málinu, sem eru um 10.000 talsins. „Þau eru ótrúlega áhugaverð og skemmtileg. Það er auðvelt að gleyma sér í þessu,” segir hann.
Forstöðumaður útgáfu Almenna bókafélagsins er Jónas Sigurgeirsson, fyrrverandi upplýsingafulltrúi Kaupþings. Jónas skrifaði grein í Fréttablaðið fyrr í mánuðinum þar sem hann gagnrýndi dómskerfið fyrir dóma yfir forstöðumönnum föllnu bankanna og spyr hvort um væri að ræða skipulagða aðför. „Engum ætti að koma á óvart að þessi hópur muni ekki sætta sig við þessa fangelsisdóma og meðferðina sem hann hefur fengið innan réttarkerfisins. Í raun hljóta þeir einnig, sem hópur, að komast að þeirri einu rökréttu niðurstöðu að þeir séu fórnarlömb skipulegrar aðfarar.”
Aðrir eigendur útgáfunnar eru Hannes Hólmsteinn Gissurarson prófessor, Baldur Guðlaugsson, fyrrverandi ráðuneytisstjóri í fjármálaráðuneytinu, Kjartan Gunnarsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri Sjálfstæðisflokksins, og Þórdís Edwald, en eiginmaður hennar, Ármann Þorvaldsson, fyrrverandi forstjóri Kaupþings í London, tók þátt í stofnun útgáfunnar í byrjun árs 2012.
Meðal bóka sem Almenna bókafélagið hefur gefið út eru „Í krafti sannfæringar - saga lögmanns” eftir Jón Steinar Gunnlaugsson, fyrrverandi hæstaréttardómara, „Andersen skjölin: Rannsóknir eða ofsóknir?” eftir Eggert Skúlason, ritstjóra DV, „Icesave samningarnir - afleikur aldarinnar?” eftir Sigurð Má Jónsson, upplýsingafulltrúa ríkisstjórnarinnar, og „Búsáhaldabyltingin: Sjálfsprottin eða skipulögð?” eftir Stefán Gunnar Sveinsson, blaðamann á Morgunblaðinu.