Öll ný HIV smit í fyrra smituðust með kynlífi en ekkert þeirra var tengt fíkniefnaneyslu. 13 fíkniefnatengd smit komu upp 2011. Sóttvarnarlæknir segir ljóst að HIV faraldurinn hafi dáið út meðal fíkniefnaneytenda.
Tilkynnt var um 13 ný HIV smit árið 2015 og tengdust áhættuþættir kynlífi í öllum tilvikum. Fram kemur í síðasta Fréttabréfi sóttvarnarlæknis að sjö einstaklingar sem greindust með veiruna höfðu stundað gagnkynhneigt kynlíf og sex höfðu stundað kynlíf með einstaklingi sama kyni. Af þessum 13 eru 11 karlar og tvær konur. Ekkert tilvikanna mátti rekja til fíkniefnaneyslu.
Árin 2010 og 2011 kom sprengja í HIV smitum hér á landi, sem mátti rekja til hóps fíkniefnaneytenda. Tekið var á málinu og gera má ráð fyrir því að það hafi skilað árangri.
Þórólfur Guðnason sóttvarnarlæknir segir að hér hafi í raun aldrei verið mikið um HIV smit meðal fíkniefnaneytenda, þó að faraldurinn hafi komið upp á þessum tveimur árum.
„Menn voru mjög hræddir að HIV væri komið til að vera innan þessa hóps,” segir hann. „En tölur síðustu ára sýna okkur að svo er ekki, sem betur fer.”
Heimild: Landlæknir
Mikill meirihluti þeirra sem greindust með HIV veiruna í fyrra er af erlendu bergi brotinn, eða 10 af þessum 13.
Þórólfur segir að erfitt sé að segja til um þróunina hvað varðar smit meðal útlendinga.
„Við vitum of lítið um þessa einstaklinga. Við vinnum bara tölurnar út frá tilkynningum sem við fáum. Það þarf að skoða tölurnar betur í stærra samhengi til þess að hægt sé að túlka þær á réttan hátt,” segir hann.
Nokkuð hefur færst í vöxt að einstaklingar sem flytjast til landsins hafi greinst með sjúkdóminn erlendis og hafi þegar hafið meðferð fyrir komu til landsins. Af þeim 13 sem greindust í fyrra á Íslandi reyndust tveir vera með alnæmi, lokastig sjúkdómsins, en enginn lést af völdum hans.