Lögfræðingar 365 kanna nú réttarstöðu fyrirtækisins gagnvart erlendu efnisveitunni Netflix. Jón Gnarr, dagskrárstjóri 365, segir umhugsunarvert að íslensk fjölmiðlafyrirtæki, sem séu bundin íslenskum fjölmiðlalögum, séu í samkeppni við erlend fyrirtæki sem þurfa ekki að lúta sömu lögmálum.
„Fjölmiðlalög á Íslandi setja okkur skorður,” segir Jón. „Við erum í samkeppni við aðila sem eru ekki bundnir af fjölmiðlalögum, eins og Netflix, sem eru skráðir í Luxemburg, og það er margt óljóst í þeim efnum. Við erum að skoða heildræna stöðu okkar gagnvart þeim.”
Jón tekur dæmi varðandi textun á efni.
„Við erum til dæmis skuldbundin til að texta allt efni sem frá okkur kemur,” segir hann. „Lögfræðingar okkar eru að skoða réttarstöðuna til að fá þetta allt saman á hreint.”
Engar drastískar breytingar á dagskrá
Netflix-þáttaröðin Orange is the New Black hefur verið sýnd á Stöð 2 undanfarin ár og segist Jón ekki eiga von á að drastískar breytingar verði gerðar á efnisvali Stöðvar 2 með tilkomu Netflix .
„En í framtíðinni munum við kannski taka tillit til þess til að vera ekki að sýna sama efnið og aðrir eru að sýna,” segir hann. Ekki liggi fyrir hvort þátturinn verði sýndur á íslenska Netflix, en mun minna efnisval verður í boði þar heldur en í því ameríska.
House of Cards á RÚV en ekki á Netflix
Fleiri þáttarraðir sem Netflix hefur sýnt hafa verið til sýninga hér á landi, eins og hin sívinsæla House of Cards sem sýnd hefur verið á RÚV. Netflix hefur ekki sýningarrétt á House of Cards á Íslandi og verða þættirnir ekki aðgengilegir á íslensku útgáfunni. RÚV hefur sýnt allar þrjár þáttaraðirnar og verður eins með þá fjórðu, að sögn Skarphéðins Guðmundssonar, dagskrárstjóra RÚV.
RÚV verður með einkarétt á sýningu þáttaraðanna þar til hætt verður að framleiða þá. Samningar sem gerðir eru ná yfirleitt yfir allar seríur sem eru framleiddar af viðkomandi þáttaröðum, það er að segja stöðin sem kaupir réttinn hefur hann fastan í hendi á meðan þættirnir eru framleiddir. Af því leiðir að Netflix getur ekki boðið upp á House of Cards hér á landi.
„House of Cards var ekki framleitt fyrir Netflix á sínum tíma, heldur framleiddi Sony þættina og seldi Netflix sýningarréttinn í öllum þeim löndum Netflix þegar fyrsta serían fór í loftið,” útskýrir Skarphéðinn. „Ísland var þá eitt Norðurlandanna án Netflix og því stóð sjónvarpsstöðvum hér til boða að kaupa þættina, sem RÚV gerði.”
Skarphéðinn segir það velta á Netflix hvort þeir muni sjá sér hag í því að kaupa aftur réttinn á seríunum sem nú þegar eru lausar, það er fyrsta og önnur sería, en það liggur enn ekki fyrir.
Sýningar á fjórðu þáttarröðinni af House of Cards hefjast á RÚV mánudaginn 7. mars og fer inn á bandaríska Netflix 4. mars. RÚV hefur ekki rétt á að setja alla þættina inn í einu og mun því sýna þá vikulega og verða þeir aðgengilegir í Sarpi og VOD.