BG12 ehf., félag í eigu Arion banka, Lífeyrissjóðs verzlunarmanna, Gildi lífeyrissjóðs, fleiri minni lífeyrissjóða og fagfjárfesta hefur selt 46 prósent hlut sinn í breska félaginu Bakkavör Group til félags sem er m.a. í eigu bræðranna Ágústs og Lýðs Guðmundssona. Sameinaði lífeyrissjóðurinn og dótturfélag Klakka selja jafnframt sinn fimm próset hlut í Bakkavör Group og kaupendur skuldbinda sig til að leggja fram kauptilboð í alla aðra útistandandi hluti í félaginu, rétt um 11 prósent, á sömu kjörum.
Lýður er stjórnarformaður Bakkavarar í dag en Ágúst forstjóri félagsins. Þeir bræður stofnuðu Bakkavör en misstu tökin á félaginu í kjölfar hrunsins. Nú hafa þeir náð þeim tökum á ný.
Í tilkynningu vegna viðskiptanna segir að félag í eigu bræðranna og bandarískra fjárfestingasjóða í stýringu hjá The Baupost Group L.L.C. kaupi hlutinn. Söluverðið er 137 milljónir punda, um 20,8 milljarðar króna. Miðað við það er heildarverðnæti Bakkavarar Group um 45,2 milljarðar króna. Salan kemur í kjölfar söluferlis Bakkavor Group Ltd. sem var í umsjón breska bankans Barclays.