Niðurstöður könnunar Siðmenntar um trú og lífsskoðanir Íslendinga hafa vakið athygli víða um heim. Samkvæmt könunninni trúir enginn undir 25 ára að Guð hafi skapað alheiminn, hvort sem viðkomandi taldi sig kristinn eður ei.
Mikið var fjallað um könnunina í fréttum hérlendis, meðal annars að hlutfall þeirra sem telja sig trúaða á Íslandi hafi aldrei verið jafn lágt, eða 46 prósent, níu af hverjum tíu framsóknarmönnum eru kristnir og að langflestir Íslendingar eru hlynntir líknandi dauða. Einnig kom fram að Íslendingar undir 25 ára aðhyllast ekki kenningar Biblíunnar.
Stórir erlendir miðlar taka málið upp
Undanfarna daga hafa ýmsir erlendir miðlar fjallað um niðurstöðurnar og þá sérstaklega þá staðreynd að ungir Íslendingar virðast vera þess fullvissir að Guð hafi ekki skapað heiminn.
Bandaríska dagblaðið Washington Post slær upp fyrirsögninni: Í þessu landi er bókstaflega ekkert kristið ungmenni sem trúir því að Guð hafi skapað heiminn.
„Ef þú færð tækifæri til að ræða við unga Íslendinga um trúarskoðanir þeirra mun nokkuð koma þér á óvart. Nákvæmlega núll prósent svarenda nýrrar könnunar segjast trúa því að Guð hafi skapað heiminn,” segir í byrjun fréttarinnar. Þá er greint frá Gallup könnun frá árinu 2014 í Bandaríkjunum þar sem kom fram að 28 prósent Bandaríkjamanna á aldrinum 18 til 29 ára trúðu því að Guð hafi skapað manninn í núverandi mynd einhvern tímann á síðustu 10.000 árum.
„Guðlausasta land Evrópu"
Írska blaðið Belfast Telegraph segir einnig frá könnuninni og sömu niðurstöðum undir fyrirsögninni: Enginn undir 25 ára á Íslandi trúir að Guð hafi skapað heiminn. Í fréttinni er síðan vísað í hinar ýmsu umræður um málið á netinu og orð Francis páfa um að „Guð væri ekki töframaður með sprota" og að kenningin um Miklahvell væri sönn. Það sama gerir breska blaðið Independent sem fjallar um málið á tveimur vefsvæðum sínum, á öðrum stað undir fyrirsögninni: Þetta er Guðlausasta land Evrópu.
Mikill fjöldi vefsíðna sem meðal annars snúa að trúleysi og gagnrýni á trúarbrögð hafa einnig greint frá niðurstöðum könnunarinnar. Dæmi er að finna á síðum The Free Thinker, Patheos, Reddit, Skeptical Science, fréttasíðunni Smashing Life og tölvuleikjaumræðusíðunni NeoGAF.