Landsbankinn, sem er 98 prósent í eigu íslenska ríkisins, seldi 0,41 prósent hlut í Borgun, sem hann auglýsti til sölu í maí í fyrra, á 30 milljónir króna, staðgreitt, til Fasteignafélagsin Auðbrekka 17 ehf., sem Guðmundur Hjaltason er í forsvari fyrir, samkvæmt gögnum Ríkisskattstjóra. Þetta þýðir að heildarvirði hlutafjár Borgunar í viðskiptunum var tæplega 7,3 milljarðar króna. Í viðskiptunum þegar 31,2 prósent hluturinn var seldur á 2,2 milljarða var heildarvirði hlutafjár um sjö milljarðar.
Þrír aðilar sýndu því áhuga að eignast hlutinn og komu þrjú tilboð í hann. Hluturinn var að lokum seldur hæstbjóðanda, sem var fyrrnefnt félag. Þetta kemur fram í samantekt Landsbankans um sölu bankans á eignarhlutum í Borgun.
Bankinn hafði áður neitað að gefa upp verðið, eins og greint var frá á vef Kjarnans. Svar Landsbankans við fyrirspurn Kjarnans var þá, svohljóðandi: „Hlutabréfin voru seld hæstbjóðanda. Verðið var í samræmi við verð í sölu Landsbankans á hlutabréfum í Borgun árið 2014, að teknu tilliti til arðgreiðslu og ávöxtunar á hlutabréfamarkaði í millitíðinni.“
Í ítarlegri samantekt Landsbankans um málið kemur fram að söluverðið sé sambærilegt og í viðskiptunum þegar 31,2 prósent hlutur var seldur á 2,2 milljarða króna, með hliðsjón af þróun hlutabréfaverðs á þeim stutta tíma sem leið á milli viðskiptanna. Um hálft ár leið á milli þess að hlutirnir voru seldir, og greiddu hluthafar Borgunar sér um 800 milljónir króna í arð í millitíðinni.
Þann 29. mars 2015 var Sparisjóður Vestmannaeyja ses. sameinaður Landsbankanum hf. Við sameininguna eignaðist bankinn 1.806.611 hluti í Borgun hf. Eignarhluturinn nam um 0,41 prósent af heildarhlutafjár í félaginu.
Í lok árs 2014, í nóvembermánuði, seldi Landsbankinn Íslands 31,2 prósent hlut sinn í Borgun fyrir 2,2 milljarða króna til Eignarhaldsfélagsins Borgunar slf., sem stofnað var skömmum fyrir kaupin á hlutnum. Ákveðið var að greiða hluthöfum Borgunar hf. 800 milljónir króna í arð vegna reksturs fyrirtækisins í fyrra á aðalfundi fyrirtækisins, en hann fór fram í febrúar. Þetta var fyrsta arðgreiðslan úr félaginu frá árinu 2007 og komu tæplega 250 milljónir króna koma í hlut nýrra hluthafa.